Í stað þess að stækka skattstofninn hefur ofuráhersla verið lögð á að hækka skatta til að mæta halla ríkissjóðs, sem þó er enn rekinn með verulegu tapi. Þessu er hægt að snúa við með því að stækka skattstofninn og skapa atvinnu fyrir fólk sem nú er á atvinnuleysisbótum. Samkvæmt fjárlögum síðustu fjögurra ára var ríkissjóður að eyða um 88 milljörðum í atvinnuleysistryggingasjóð. Ef sköpuð væru störf fyrir þetta fólk og því gefinn kostur á að bjarga sér í stað þess að fá skammtað úr hnefa bætur sem varla er hægt að lifa af, þá væri hægt að snúa gjöldum í skatttekjur fyrir ríkissjóð.