Nemendur í 10. bekk í GRV munu standa fyrir gangbrautavörslu á nokkrum fjölförnum gangbrautum á morgnana í svartasta skammdeginu með það fyrir augum að auka öryggi yngri nemenda á leið sinni í skólann. Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu frá GRV og Landsbankanum.
Þar segir jafnframt að þetta sé frábært verkefni sem eflir samfélagsvitund og samkennd og gefur nemendum tækifæri að taka þátt í samfélagsmálum á ábyrgan hátt. Þetta er í sjöunda sinn sem 10. bekkur sinnir þessu verkefni og mun það byrja næstkomandi mánudag, 11. nóvember, og mun standa út febrúarmánuð 2025. Lögreglan í Vestmannaeyjum mun að sjálfsögðu vera áfram með venjubundið eftirlit við skólana og vera nemendum innan handar ef þörf er á.
Gangbrautirnar sem nemendur vakta eru þrjár; á Skólavegi, á Kirkjuvegi við Vallargötu og við Hraunbúðir. Gangbrautaverðirnir verða vel sýnilegir í gulum vestum og munu leggja sig fram við að aðstoða yngri nemendur í umferðinni.
Líkt og áður kemur Landsbankinn að verkefninu með veglegum styrk í ferðasjóð 10. bekkja í GRV og útvega vesti fyrir gangbrautaverðina. Landsbankinn vill með þessu framlagi leggja sitt lóð á vogarskálarnar þegar kemur að öryggi barna og unglinga í umferðinni í Vestmannaeyjum.
Við í Grunnskóla Vestmannaeyja þökkum Jóni Óskari Þórhallssyni, útibússtjóra Landsbankans í Vestmannaeyjum kærlega fyrir samstarfið.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst