Hildur Sólveig Sigurðardóttir, sjúkraþjálfari, húsmóðir og bæjarfulltrúi og nú oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn segir frá sjálfri sér, uppruna, starfi, fjölskyldu og pólitíkinni. Þar var henni snemma sýnt mikið traust og sýndi í kosningabaráttunni í vor að hún getur náð langt í pólitíkinni ef hugur hennar stendur til frekari metorða á þeim vettvangi. Hún neitar því ekki að úrslit kosninganna í vor, þar sem Sjálfstæðisflokkur tapaði meirihluta hafi verið vonbrigði en sé enginn heimsendir. Hildur Sólveig er ánægð með samstarfið við Elliða Vignisson sem hafi skilað góðu starfi fyrir Vestmannaeyjar sem bæjarstjóri. Stundum hafi þau tekist á en það hafi alltaf verið á jafnréttisgrundvelli.
„Ég er bara ósköp venjulegur Vestmannaeyingur sem á rætur sínar að rekja til Akraness. Þar fæddist ég árið 1983 og ólst upp í nokkuð áþekku samfélagi og Vestmannaeyjar eru, sjávarplássi og íþróttabæ þar sem nálægðin og samheldnin í samfélaginu er mikil,“ segir Hildur Sólveig þegar hún er spurð um uppvöxtinn á Skaganum sem hefur getið af sér ótrúlega flottar konur síðustu ár.
Góð ár í Framhaldsskólanum
„Ég útskrifaðist af félagsfræði- og náttúrufræðibraut við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum jólin 2002. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa haft tækifæri til að stunda framhaldsnám í heimabyggð og átti frábæra tíma í FÍV. Félagsstarfið var öflugt og skemmtilegt, kennararnir fjölbreyttir og metnaðarfullir og námið virkilega góður undirbúningur fyrir framtíðina. Handboltinn skipaði einnig stóran sess á framhaldsskólaárunum þar sem ég fékk að upplifa einstaka tíma og varð Íslands- og bikarmeistari með meistaraflokki í handbolta og þjálfaði svo yngri flokka í nokkur ár.“
Í sjúkraþjálfun fyrir tilviljun
Hildur Sólveig segist hafa endað í háskólanámi í sjúkraþjálfun fyrir einskæra tilviljun. „Ég átti mjög erfitt með að ákveða námsleið enda hélt ég að ég væri að steypa líf mitt í eitthvað endanlegt mót: Sótti hverja háskólakynninguna á fætur annarri þar sem ég fann alltaf fleiri og fleiri spennandi möguleika. Var eins og barn í sælgætisbúð.
Ég ákvað að þreyta inntökupróf í læknisfræði sem voru haldið árið 2003 í fyrsta skiptið til að lengja umsóknarfrestinn fyrir mig. Ef ég næði inn gæti ég séð til hvort læknisfræðin væri eitthvað sem mér myndi hugnast.
Skömmu eftir að ég sendi inn umsókn í inntökuprófið las ég reglurnar um prófið. Þar sá ég að hægt var að skrá sig í sjúkraþjálfun sem varaval eða öfugt. Ég sendi tölvupóst á skorarformanninn og athugaði hvort ég gæti breytt þessu hjá mér eftir á og hún játti því.
Ég komst ekki inn í læknisfræðina en komst inn í sjúkraþjálfunina. Þetta var eina árið sem þessi möguleiki var til staðar, þ.e. að velja varaval. Ég hafði ekki hugmynd um út í hvað ég væri að fara en ákvað að slá til og viti menn, þetta nám bauð upp á allt sem ég hafði áhuga á, tengingu við íþróttir, yfirgripsmikið nám um starfsemi líkamans og sjúkdóma, starf sem fólst í að hjálpa fólki, mikil mannleg samskipti, fjölbreytni og margt fleira,“ segir Hildur Sólveig.
Dregin til Eyja
Af hverju til Eyja? Ég var í raun dregin nauðug viljug til Vestmannaeyja 11 ára gömul og var ekki par hrifin til að byrja með ef satt skal segja. Að flytjast á eldfjallaeyju fjarri vinum og fjölskyldu. Mamma ætlaði upphaflega að koma og leysa af hér eitt sumar sem ljósmóðir en henni bauðst framtíðarstarf sem hún þáði. Ég verð henni ævinlega þakklát fyrir það hugrekki sem hún sýndi við að flytja sem einstæð móðir í nýtt samfélag án stuðnings nánustu fjölskyldu en hér átti hún og eignaðist kæra og góða vini sem gerðu henni og okkur lífið dásamlegt og mótaði hún með þessu skrefi framtíð mína.“
Hildur Sólveig er einkabarn Drífu Björnsdóttur ljósmóður og Sigurðar Karls Ragnarssonar blikksmíðameistara. „Mamma kenndi mér mjög snemma að standa á eigin fótum og hvatti hún mig og studdi í því að fá mér vinnu. Eftir grunnskóla varð ég svo til fjárhagslega sjálfstæð og held ég að það sé með því mikilvægasta sem við kennum börnunum okkar, að bera virðingu fyrir peningum, gott vinnusiðferði og að fara vel með það sem þú aflar.
Seint á síðustu öld eignaðist ég svo minn fyrsta kærasta á þjóðhátíð og vandaði ég valið greinilega einstaklega vel þar sem hann hefur fylgt mér allar götur síðan. Með honum hef ég eignast tvö dásamleg börn sem hafa verið að kenna mér á lífið upp á nýtt. Stærsti hluti nánustu fjölskyldu minnar býr svo á Akranesi en öll tengdafjölskyldan er búsett í Eyjum,“ segir Hildur Sólveig en maður hennar er Sindri Ólafsson hagfræðingur og þau eiga Aron og Söru Rós.
Vinnan áhugamálið
Hún segist vera einstaklega heppin að hafa áhugamál sitt að atvinnu, það séu ein bestu lífsgæði sem hægt sé að hugsa sér. „Enda eyðum við eflaust flestum stundum lífs okkar í vinnunni og því er eins gott að gera eitthvað sem manni þykir skemmtilegt. Ég hef a.m.k. enn ekki upplifað það að vakna á morgnana og hafa ekki áhuga á að fara til vinnu. Er ég einstaklega þakklát fyrir það.
Áhugasvið mitt innan sjúkraþjálfunar er mjög vítt, barnasjúkraþjálfun, íþróttasjúkraþjálfun og meðhöndlun bakvandamála eru nokkur dæmi og svo hef ég brennandi áhuga á forvörnum stoðkerfisverkja og er að setja stefnuna nokkuð markvisst á það svið þessa dagana. Önnur áhugamál eru svo hlaup, ferðalög, samvera með fjölskyldu og vinum, lestur, tungumál og að sjálfsögðu stjórnmál.“
Ólétt í pólitík
Hvenær kviknaði áhuginn á pólitík og af hverju Sjálfstæðisflokkurinn og hver er ástæða þess að þú helltir þér út í bæjarpólitíkina?
„Eins og svo margt í mínu lífi þá var það nokkur tilviljun að ég lenti í bæjarpólitíkinni. Það vantaði konur á lista árið 2010 og var haft samband við mig. Á þeim tíma var ég ólétt og hugsaði að þetta gæti verið áhugavert verkefni en ég er almennt þannig úr garði gerð, að ég reyni að taka flestu með opnum og jákvæðum hug.
Ég þekkti og treysti vel fólkinu sem starfaði í Sjálfstæðisflokknum í Vestmannaeyjum og kunni vel við frelsishugsjónina. Ég varð varabæjarfulltrúi og tók við formennsku í fræðsluráði eftir kosningarnar 2010 sem hefur eflaust þótt gagnrýnivert af einhverjum. Að nýgræðingur í stjórnmálum, þá 27 ára gömul hafi verið treyst fyrir jafn yfirgripsmiklum málaflokki og fræðslu- og menningarmálum sem er jafnframt fjárfrekasti málaflokkur sveitarfélagsins.“
Var fljótt sýnt traust
Hildur Sólveig segir að það hafi verið nokkur eldskírn. „En ég fann það fljótt að mér var sýnt mikið traust og frelsi á sama tíma og ég naut leiðsagnar frá mér reyndari fulltrúum og reynslumiklu og hæfu starfsfólki sveitarfélagsins.
Ég hélt svo áfram 2014 sem varabæjarfulltrúi þar til Páley Borgþórsdóttir steig til hliðar þegar hún var ráðin lögreglustjóri í Vestmannaeyjum. Aftur var mér treyst fyrir veigamiklu hlutverki þegar mér var falið að sitja í forsæti bæjarstjórnar og var sá tími sem ég gegndi því hlutverki mér mjög dýrmætur og góður skóli.
Stjórnmálin hafa nefnilega kennt mér svo ótrúlega margt, mikið um mannleg samskipti, þekkingu á stjórnsýslunni og hvernig hlutirnir ganga fyrir sig, ég hef þjálfast í að koma fram opinberlega fyrir hönd sveitarfélagsins og eitt af því skemmtilegasta er að ég hef kynnst fjölmörgu ólíku fólki og lært að vinna að ólíkum hlutum. Ég hef almennt einlægan áhuga á fólki og samfélaginu okkar og er mjög þakklát að fá að starfa á vettvangi þar sem ég næri þetta áhugasvið mitt á sama tíma og ég reyni eftir fremsta megni að vinna samfélaginu gagn.“
Samstarfið í meirihlutanum og við Elliða
Hildur Sólveig segir samstarfið hafi verið mjög gott undanfarin ár í bæjarstjórninni, jafnt meðal meirihluta og minnihluta og á tímum hafi samstarfið verið svo gott að það þótti gagnrýnivert.
„Helstu ágreiningsmál bæjarstjórnar hafa verið varðandi friðlýsingu fuglabjarga, húsmæðraorlofið og svo hefur Fiskiðjan mikið verið rædd en í lok kjörtímabilsins var að ég held enginn vafi í hugum bæjarfulltrúa um hversu jákvætt það var að fara í þær stórframkvæmdir. Bæjarfulltrúar voru allir sem einn jafningjar að mínu mati á síðasta kjörtímabili og samvinnan var einstök og þakka ég það forystu og framgöngu bæjarstjórans fyrst og fremst.
Elliði Vignisson er að mínu mati einn öflugasti málsvari sem íslenskt sveitarfélag hefur átt á síðari tímum. Hann hefur mikla leiðtogahæfileika, óviðjafnanlega ást og trú á samfélaginu í Vestmannaeyjum, er víðsýnn, hugmyndaríkur og framsækinn. Fram á síðasta dag í starfi sínu kom hann að og vann brautargengi hugmyndum og verkefnum sem fela í sér mikla framtíðarsýn.
Við áttum oft okkar rimmur og vorum langt frá því að vera alltaf sammála enda að mörgu leyti mjög ólíkir einstaklingar en á vissan hátt einnig mjög lík. Ég upplifði alltaf sanngirni í okkar samstarfi og gagnkvæma virðingu og traust. Ég mun aldrei geta fullþakkað það mikla traust og hvatningu sem ég hef alla tíð fundið frá Elliða. Hann hefur verið mér mikill lærifaðir og ég er einstaklega þakklát að hafa fengið að starfa við hans hlið. Hann hefur sjálfur sagt að hann hafi aldrei skipt út úr símaskránni starfsheitinu kennari og þykir mér það mjög viðeigandi því hann hefur verið mörgu samferðafólki sínu mikill kennari og ekki síst mér sjálfri,“ segir Hildur Sólveig.
Staðan í heilbrigðismálum mestu vonbrigðin
Þegar hún eru spurð um hvað standi upp úr af þeim málum sem hún hefur komið að í bæjarstjórn, hvað hún er ánægðust með og mestu vonbrigðin þessi ár sem hún hefur með Sjálfstæðisflokknum í meirihluta, stóð ekki á svarinu. „Mesta ánægjan var án efa yfirtaka á rekstri Herjólfs en þar fann maður hvað samstaðan og kraftur bæjarfulltrúa allra skiptir miklu máli. Að hafa átt stóran þátt í taka jafn stórt skref í samgöngubaráttu samfélagsins er eitthvað sem aldrei gleymist.
Merlin hvalaverkefnið sem Páll Marvin og Elliði eiga heiðurinn að nær skuldlaust er auðvitað ævintýri líkast og mun reynast okkar samfélagi mjög dýrmætt.
Nýja háskólanámið sem var sett á laggirnar var auðvitað frábær áfangi. Útboðið á Sóla og íþróttakademía GRV voru einnig verkefni sem heppnuðust vel. Á sama hátt var stórkostleg þjónustuaukning, sérstaklega við fjölskyldufólk á sama tíma og miklar framkvæmdir standa yfir m.a. í húsnæðismálum aldraðra og fatlaðra eitthvað sem ég er óneitanlega stolt af að hafa tekið þátt í á meðan við höfum varið gríðarlega sterka rekstrarstöðu sveitarfélagsins.
Mestu vonbrigðin eru aftur á móti heilbrigðismálin, þrátt fyrir tilraunir sveitastjórnarinnar til yfirtöku á málaflokknum í heild sinni til að viðhalda því þjónustustigi sem við teljum nauðsynlegt að hér sé opin skurðstofa allt árið. Þar erum við enn í óásættanlegri stöðu. Í Vestmannaeyjum er skurð- og fæðingarþjónusta gríðarlega takmörkuð og fyrirkomulag sjúkraflutninga óásættanlegt eins og kom m.a. fram í svartri skýrslu Ríkisendurskoðunar.“
Auðvitað vonsvikin
„Auðvitað er maður vonsvikin yfir úrslitunum í kosningunum í vor. Enda væri annað skrítið, verandi mikil keppnismanneskja. Við töpuðum meirihluta nánast með minnsta mögulega mun. Það gerir það sjálfsögðu erfiðara að sætta sig við niðurstöðuna. Hins vegar er það ótvírætt að stærsti hluti bæjarbúa treystir Sjálfstæðisflokknum best til að reka sveitarfélagið og er hann áfram langstærsta stjórnmálaaflið í Vestmannaeyjum.
Við vissum að það yrði á brattann að sækja og þetta yrði tæpt enda aðstæður fordæmalausar. Málefnastaða okkar var mjög sterk en að mínu mati náði umræðan eingöngu að litlu leyti að snúast um málefnin. Nú er staðan önnur, hlutverkin eru ný og þetta er vissulega lærdómstækifæri sem ég ætla mér að nýta vel. Ég er jafnframt mjög þakklát bæði kjósendum og öllu því góða fólki sem maður hefur fengið tækifæri að vinna með og kynnast á undanförnum mánuðum. Nú er hafið tímabil uppbyggingar fyrir Sjálfstæðisflokkinn og finnum við strax mikinn meðbyr og er ég þess fullviss að Sjálfstæðisflokkurinn í Vestmannaeyjum mun ná fyrri styrk og stærð og mun ég leggja mig alla fram við að svo megi verða.
Mun starfa af sannfæringu
Hvernig sérðu fyrir þér að vera í minnihluta? „Í raun á margan hátt eins og ég starfaði sem bæjarfulltrúi í meirihluta. Ég mun starfa af sannfæringu, sanngirni og leggja mikið upp úr því að vera málefnaleg. Ég mun leggja mig alla fram við að vinna brautargengi þeim málum sem munu hafa jákvæð áhrif á Vestmannaeyjar og jafnframt vinna hart að því að verja sterka rekstrarlega stöðu sveitarfélagsins sem búið er að leggja miklu vinnu í að byggja upp yfir langan tíma.“
Verðum áfram á sóknarbraut
Væntingar til framtíðar Vestmannaeyja? „Vestmannaeyjar hafa alla burði til að halda áfram á þeirri miklu sóknarbraut sem samfélagið hefur verið í á undanförnum árum. Mikil fasteignauppbygging, vöxtur í ferðaþjónustu, aukin nýsköpun og miklar fjárfestingar í sjávarútvegi sýna svo ekki verður um villst að fólk hefur ótvíræða trú á samfélaginu og framtíð þess.
Ég bíð spennt komu nýrrar ferju sem er loksins væntanleg í haust og bind miklar vonir við að hún verði mikil samgöngubót og komi til með að auka nýtingu Landeyjahafnar verulega.
Það breytir því hins vegar ekki að áfram þarf að vinna að lagfæringum á höfninni. Að mínu mati verður krafan alltaf annað skip sem siglir á móti nýjum Herjólfi þegar þetta fer að ganga eins og við ætlumst til. Krafan um fleiri ferðir og aukna þjónustu gerir ekkert annað en að vaxa með samfélaginu.“
Næg verkefni framundan
Helstu baráttumálin sem þú sérð fyrir þér á nýju kjörtímabili „Það verður að sjálfsögðu áfram hagsmunabaráttan við ríkið um heilbrigðismál og samgöngur, en áherslan mun væntanlega flytjast að einhverju leyti yfir á flugsamgöngurnar þar sem við höfum náð góðum árangri með sjósamgöngur á síðasta kjörtímabili.
Munu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins a.m.k. berjast fyrir fyrirkomulagi á borð við skosku leiðina í flugi, þróun hugmynda um stórskipahöfn, viðbyggingu við Hamarsskóla fyrir m.a. starfsemi Tónlistarskólans, bættri íþróttaaðstöðu í Týsheimilinu og að sjálfsögðu að verja rekstur sveitarfélagsins og koma í veg fyrir þenslu í stjórnkerfinu er hluti þess sem við munum leggja mikla áherslu á og munu vonandi fá hljómgrunn innan meirihlutans,“ segir Hildur Sólveig að endingu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst