GRV – Líta björtum augum á framtíðina: Tryggvi Már
Í haust verða gerðar breytingar á Grunnskóla Vestmannaeyja. Þá verður GRV ekki lengur einn skóli heldur verður hann rekinn á ný sem tvær rekstrareiningar, GRV- Barnaskóli og GRV- Hamarsskóli. Engar breytingar verða gerðar á fyrirkomulagi skólanna og verður allt með hefðbundnum hætti og samstarf milli Barna- og Hamarsskóla verður áfram mikið og gott.
Með þessari breytingu þurfa þó að vera tveir skólastjórar, einn í hvorum skóla. Anna Rós Hallgrímsdóttir núverandi skólastjóri GRV verður skólastjóri í Hamarsskóla þar sem einnig er Víkin 5 ára deild og Frístundaverið, allt undir Hamarsskóla. Einar Gunnarsson sem hefur verið aðstoðarskólastjóri í Barnaskólanum mun taka við sem skólastjóri þar og heldur utan um skólastarf í 5. – 10. bekk.
Hvað varðar annað starfsmannahald mun það vera með hefðbundnum hætti, en með þessum breytingum á um leið að efla stoðþjónustuna í skólunum og munu verða deildarstjórar stoðþjónustu í hvoru húsi. Bættist þá við ein deildarstjóra staða í Barnaskólanum og mun sá aðili halda utan um stoðþjónustuna þar.
Líðan nemenda skiptir öllu
Skólastjórarnir segja að það sé mjög mikilvægt að hafa góða stoðþjónustu til að geta mætt hverjum og einum nemanda þar sem hann er staddur, líðan nemenda skiptir öllu máli og mikilvægt að takast á við þau mál, því við sjáum að líðan nemenda hrakar í samfélaginu okkar í dag. ÍSAT nemendum (nemendum með annað tungumál en íslensku) fjölgar í skólanum og munu deildarstjórar stoðþjónustu halda utan um þau mál og það er málaflokkur sem við þurfum að vinna betur að.
Anna Rós og Einar vilja þó meina að þessar breytingar á skólunum hafi sem minnst áhrif á almenna starfsemi skólana og munu leggja sig fram við að halda góðu samstarfi á og munu vinna áfram eftir sömu stefnum og áherslum sem Grunnskóli Vestmannaeyja stóð fyrir. Það eru spennandi tímar framundan í skólaumhverfinu, við hér í Eyjum viljum gera vel og höfum nú þegar stigið skref í þeim málum. „Nú fyrir stuttu síðan kom út skýrsla um stöðu drengja í skólakerfinu. Þar kemur fram að drengir eru að verða af tækifærum til að nýta styrkleika sína. Þetta er ekki eitthvað sem við getum litið framhjá og í þessu máli þýðir heldur ekki að benda á einhvern annan. Við berum öll ábyrgð á að laga þessa hluti og taka höndum saman, ríki, sveitarfélög, skólasamfélagið og foreldrar,“ sagði Einar.
„Skólinn hefur nú þegar tekið ákvörðun um að gera betur. Við í Grunnskóla Vestmannaeyja fórum af stað fyrir þremur árum með verkefnið Kveikjum neistann, þar sem markmiðið er að lyfta öllum upp. Stóra markmiðið er að 80% nemenda séu læs við lok 2. bekkjar. Við viljum efla lesskilning, auka áhuga á námi, bæta við hreyfingu og vinna með grósku hugarfar,“ sagði Anna Rós.
„Við getum verið ánægð með árangur okkar í verkefninu, við mælum og metum hvar við stöndum og við erum að ná þeim markmiðum sem við lögðum upp með. Við trúum því líka að við séum að gera rétta hluti, með vísindin að baki og að við séum að leggja okkar að mörkum í stóra samhenginu. Vestmanneyjabær á líka stórt hrós skilið fyrir að vera tilbúinn að fara í þetta verkefni með okkur og styðja okkur í því og ryðja mögulega leiðina fyrir önnur sveitarfélög.“
Mikilvægt að meta og mæla
Þau segja að það verði áskorun að halda verkefninu áfram, nú næsta haust kemur fjórði árgangurinn inn í verkefnið og eru þá allir árgangar í Hamarsskóla að vinna eftir Kveikjum neistann. „Við leggum upp með því að stilla stundatöflum þannig upp að hreyfing sé snemma dags, grunngreinar og þjálfunartímar helst fyrir hádegi og svo endi skóladagurinn á ástríðutímum sem eru tímar þar sem nemendur fá að velja sér verkefni eftir áhugasviði. Það er áskorun að stilla stundatöflunum upp í öllum árgöngum eftir þessari formúlu og það verður spennandi að sjá hvernig hlutirnir þróast þegar verkefnið færist yfir i Barnaskólann,“ segir Einar.
„Í dag er staðan þannig að ekki er munur á árangri stúlkna og drengja og verður áhugavert að fylgjast með hvort við náum að halda þeirri þróun áfram þegar komið er yfir á mið – og unglingastig. Það er mikilvægt að við höldum áfram að meta og mæla stöðuna. Það er nauðsynlegt að nemendur og foreldrar séu meðvitaðir um stöðu sína í námi, hvernig gengur og hvað þarf að bæta. Með kveikjum neistann viljum við gera vel í þessum málum og koma upplýsingum betur til nemenda og foreldra um stöðu nemandans,“ sagði Anna Rós.“
Íþróttaakademía sannað gildi sitt
„Við í GRV erum bjartsýn á framtíðina, við erum með góðan hóp starfsfólks í báðum skólum. Við erum með hátt hlutfall menntaðara kennara sem er mikill styrkleiki. Kennarar eru sífellt að bæta við þekkingu sína á ýmsum sviðum og starfsþróun er öflug. Við fórum á fullt í tækniinnleiðingu fyrir nokkrum árum og nú eru allir nemendur í skólanum með tæki sem þau geta unnið með, þetta hefur haft mikil og góð áhrif og gert skólastarfið fjölbreyttara og aukið sköpun og áhuga margra nemenda. Þegar þessum áfanga var náð var ákveðið að stíga skrefið og hafa skólann símalausann, sem hefur gengið mjög vel,“ sagði Einar.
„Við höfum aukið val nemenda á öllum stigum, fjölgað valgreinum á unglingastiginu og má segja að við séum að bjóða upp á ansi fjölbreytt val. Lokaverkefni 10. bekkjar er frábær endir á 10 ára skólagöngu og erum við afar stolt af því verkefni og við finnum hvað nemendur fara glaðir frá okkur eftir þá vinnu.
Íþróttaakademía ÍBV og GRV hefur verið starfrækt í mörg ár og óhætt að segja að hún hafi löngu sannað gildi sitt og við eigum mikið af öflugu íþróttafólki og það má ekki gleymast að með samstilltu átaki eins akademíunni getum við aðstoðað unglingana okkar að standast þær freistingar sem fylgir unglingsaldrinum. Við viljum efla samstarf skólans og íþróttafélagana enn frekar og styrkja akademíuna hjá okkur,“ sagði Anna Rós.
Risastórt samvinnuverkefni
„Það má því segja að víð lítum björtum augum á framtíðina og hlökkum til að takast á við næstu áskoranir. Það má heldur ekki gleyma hlut foreldra í menntun barna. Frasinn það þarf heilt samfélag til að ala upp barn hefur oft verið sagður, en þegar maður vinnur í skólaumhverfinu sér maður það svo skýrt að við getum þetta ekki ein, þetta er risastórt samvinnuverkefni,“ sagði Einar.
„Í Kveikjum neistann viljum við efla grósku hugarfar og ná að smita það hugarfar inn í samfélagið. Hjálpumst að við að ala upp góðar manneskjur, sterka einstaklinga, sem hafa trú á eigin getu, þori að vera þau sjálf, hafi vilja til að leggja sig fram og gera vel,“ segja þau Anna Rós Hallgrímsdóttir og Einar Gunnarsson.
Mynd: Nemendur 10. bekkjar sem tóku þátt í Íþróttaakademíunni sl. vetur.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst