Það er mikil bylting að lagt verði gervigras á völl í Vestmannaeyjum. Um er að ræða risa fjárfestingu sem mun bæta mjög aðstæður íþróttafólks. Þá ekki eingöngu meistaraflokka heldur einnig í fyrir yngri iðkendur félagsins.
Ekki hvað síst skiptir þetta máli þegar aðal keppnisvöllur bæjarins er tekinn undir. Þar gengur ekki annað en að standa vel að verki. Hefði ég vitað að alls ekki kæmi til greina að leggja hitalagnir undir völlinn hefði ég nú helst vilja halda grasinu á langfallegasta grasvelli landsins og leggja gervigrasið frekar á Týs, Þórs, -eða Helgafellsvöll. Það gengur ekki að kasta til hendinni á aðalvellinum okkar, sjálfum Hásteinsvelli.
Ég harma ákvörðun bæjarráðs að synja erindi sem barst frá ÍBV-íþróttafélagi varðandi hitalagnir. Í svo kostnaðarsamri framkvæmd, ættum við að hafa metnað til þess að gera hlutina með þeim hætti að þeir séu með sem bestu móti. Ef félagið treystir sér til að gera þetta með þeim hætti sem þeir leggja til og með þeim kostnaði, líkt og fram kemur í erindi þeirra, þá er ég tilbúin til þess að treysta formanni ÍBV, framkvæmdastjóra ÍBV og framkvæmdanefnd ÍBV fyrir verkefninu. Og í staðinn fyrir að sjá bjálkann í verkefninu er ég tilbúin til að aðstoða við öflun styrktaraðila, sjálfboðaliða eða annars sem félagið okkar gæti mögulega þarfnast vegna framkvæmdarinnar.
Til lengri tíma litið er hagkvæmara að þessar lagnir séu lagðar núna, jafnvel þó þær verði ekki tengdar. Þá leið fór til dæmis Ísafjörður þegar þeir lögðu gervigras hjá sér. Þar var ekki tjaldað til einnar nætur.
Því miður er það að verða einhver venja þegar kemur að okkar sameiginlegu hagsmunum að sveipa málin leyndarhyggju. Skóflustunga á Hásteinsvelli var tekin í einhvers konar kyrrþey, og byrjað var að flétta grasinu af vellinum þótt enn hafi verið umræða um hvernig væri heppilegast að vinna málið. Nú hafa rúllur af grasi nú legið í einhverja daga á vellinum án hreyfingar. Þegar þetta er skrifað er 16. desember en knattspyrnutímabilinu lauk í september. Hefði málið verið vel undirbúið og í samráði við hagaðila hefði verið hægt hefði verið að hefjast handa fyrr, en ákvörðun var tekin um að fara í verkefnið í desember á síðasta ári. Nægur hefur tíminn verið. Þessi seinagangur mun líklega valda óþarflegri seinkun á verkinu og setja til dæmis skipulagningu TM-mótsins og Orkumótsins í vanda, en bæði þessi mót eru gríðarlega mikilvæg fyrir samfélagið okkar eins og við öll vitum.
Til stendur að byggja nýja búningsklefa hjá íþróttahúsinu. Um er að ræða húsnæði á tveimur hæðum, 900fm. að grunnfleti, samtals 1800fm. Ekki hefur verið upplýst um það hvað á að vera á efri hæðinni, einhverjar hugmyndir eru uppi en engin ákvörðun svo best ég viti. Þó svo að mér sjálfri finnist fullvel lagt í stærð húsnæðisins þá efast ég ekki um þörfina.
Persónulega finnst mér reyndar stórskrýtið að byggja tveggja hæða hús en vita ekki hvernig nýta eigi helminginn af því. Rökin fyrir því eru að hagkvæmara sé að reisa húsið með þessum hætti heldur en að byggja ofan á það síðar meir. Því miður þá gildir ekki þessi sama röksemdarfærsla 100 metrum norðar, á Hásteinsvelli.
Það er ótrúlegt til þess að hugsa hversu lítið þessar framkvæmdir hafa verið til umfjöllunar innan ráða og nefnda sveitarfélagsins en þessar framkvæmdir eiga skv. fjárhagsáætlun að kosta rúman milljarð. Þá er einnig með ólíkindum að ekki hafi verið haldnir kynningarfundir með hagaðilum og öðrum áhugasömum vegna þessara framkvæmda. Mál sem þessi eru alls ekki einkamál örfárra aðila heldur hagsmunamál okkar allra. Stjórnarhættir sem þessir og samráðsleysi veldur tortryggni og er ekki til eftirbreytni.
Við, sem störfum í stjórnmálum í umboði bæjarbúa, verðum að hafa kjark til þess að taka umræðuna við þá sem þess óska, kynna okkar sýn og fá að heyra önnur sjónarmið. Ég óttast það ekki.
Margrét Rós Ingólfsdóttir
bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst