Horfur eru á að hagvöxtur á árinu 2022 verði um 0,8 prósentum meiri en ella þar sem góðar líkur eru á stærstu loðnuvertíð undanfarinna tveggja áratuga. Þetta kemur fram í Korni Greiningar Íslandsbanka um áhrif loðnuvertíðar.
Því blasir við að veruleg aukning verði á útflutningstekjum af loðnuafurðum á nýhöfnu fiskveiðiári. Loðnan skilaði ríflega 18 ma.kr. útflutningstekjum á fyrstu 8 mánuðum þessa árs og er árið í ár hið fyrsta síðan 2019 þar sem tekjur af loðnunni náðu tveggja stafa tölu í milljörðum talið. Greiningu Íslandsbanka þykir ekki óvarlegt að áætla að tekjurnar gætu orðið a.m.k. þrefalt meiri á komandi ári, eða sem samsvarar 50-70 mö.kr. og ekki er útilokað að talan reynist á endanum enn hærri.
Getur þetta orðið til þess að í stað 2% samdráttar í útflutningstekjum sjávarafurða á komandi ári, eins og spáð var í nýútkominni þjóhagsspá Íslandsbanka, gæti vöxtur orðið á bilinu 6-8%. Þetta gæti haft þau áhrif að í stað þess 3,6% hagvaxtar sem spáð var fyrir árið 2022 gæti hann reynst um 4,4%, vegna loðnunnar.
Hér má lesa Korn Greiningar Íslandsbanka um áhrif loðnuvertíðar í heild sinni
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst