Nú þegar fer að nálgast kosningar og virðast nokkrir flokkar ætla að stökkva á Miðflokksvagninn í innflytjendamálum. En þegar svo gerist er nauðsynlegt að skoða sögu flokksins í málaflokknum. Miðflokkurinn er eini flokkurinn sem hefur staðið í lappirnar í þessum málaflokki síðustu ár. Málaflokkur sem er kominn í algjört strand og er nauðsynlegt að fara að snúa ofanaf þeim kostnaði sem er þar til staðar. Kostnaður sem hefði sparast með því að leggja við hlustir og hlusta á tillögur og viðvaranir Miðflokksins síðustu ár.
Nú er mikill uppgangur í Eyjum og ber að hrósa bæjaryfirvöldum fyrir þeirra þátt í því. Bæjaryfirvöld sem hafa tekið höndum saman í því að berjast fyrir hagsmunum eyjunnar okkar. Í menntamálum hafa Eyjamenn tekið af skarið og ákveðið að gera eitthvað. Með tilkomu verkefnisins Kveikjum Neistann hefur verið stigið mikið framfaraskref svo eftir er tekið og fá börnin okkar og barnabörn að njóta afraksturssins.
Samgöngur Vestmannaeyja tóku miklum framförum með tilkomu Landeyjahafnar og nýjum Herjólfi. En betur má ef duga skal, frátafir hafa verið þónokkrar vegna veðurs undanfarið og augljóst er að nauðsynlegt er að fara þurfi í lagfæringar á höfninni svo hún virki eins og ætlast er til. Þá er nauðsynlegt að vera með aðila innan ríkisstjórnar sem hefur búið í Eyjum og veit hversu nauðsynlegar þessar samgöngur eru okkur Eyjamönnum. Ég veit allavega hverjum ég treysti best í þessum málaflokki.
Karl Gauti lagði fram þingsályktunartillögu síðast þegar hann var á þingi um að klára rannsóknir á jarðlögum vegna jarðgangna. Því miður talaði hann fyrir daufum eyrum, rétt eins og Ægisdyr, sem barist hafa fyrir rannsóknum á jarðgöngum í mörg ár. En nú er þetta málefni að komast á kortið aftur og þurfum við allar hendur á dekk eins og góður maður hefði orðað það, til að koma verkefninu alla leið og klára þessar rannsóknir. Þá fyrst verður hægt að fara í viðeigandi aðgerðir. Hvort sem það verði gerð jarðgangna eða endanleg lagfæring á Landeyjahöfn til framtíðar.
Ég treysti mínu fólki, Karli Gauta, Heiðbrá, Ólafi og Kristófer Mána til að berjast fyrir málefnum okkar Eyjamanna. Ég hef verið í góðu sambandi við þau öll, sem og forystu flokksins varðandi öll þessi málefni og mun halda því ótrauður áfram.
Setjum X við M! – Miðflokkurinn stendur á sínu.
Kveðja Guðni Hjöll.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst