Starfshópur sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra fól að gera tillögur um leiðir til að jafna aðgang að ýmis konar sérfræðiþjónustu á heilbrigðissviði óháð búsetu hefur skilað niðurstöðum sínum. Tillögur hópsins snúa einkum að því hvernig nýta megi heimildir í lögum um Menntasjóð námsmanna til að beita tímabundnum ívilnunum við endurgreiðslu námslána, til að styrkja mönnun sérfræðinga í heilbrigðisþjónustu, einkum í dreifðum byggðum.
Í VII. kafla laga um Menntasjóð námsmanna eru ákvæði um sértækar aðgerðir sem lúta að tímabundnum ívilnunum við endurgreiðslu námslána við sérstök skilyrði. Annars vegar er samkvæmt 27. gr. laganna heimilt að beita ívilnuninni ef fyrir liggja upplýsingar um viðvarandi eða fyrirsjáanlegan skort á fólki með tiltekna menntun. Markmiðið er að skapa sérstakan hvata fyrir fólk til að sækja sér þá tilteknu menntun og til að starfa í tiltekinni starfsgrein. Hins vegar er samkvæmt 28. gr. laganna heimilt að beita umræddri ívilnun til að bregðast við ástandi þar sem skortur er á menntuðum einstaklingum á ákveðnum svæðum. Ívilnunin er þá bundin því skilyrði að lánþegi sem búsettur er á viðkomandi svæði nýti menntun sína til starfa í a.m.k. 50% starfshlutfalli í viðkomandi byggð í að lágmarki tvö ár.
Verkefni starfshóps heilbrigðisráðherra var að leggja til útfærslu á því hvernig beita megi fyrrgreindum heimildum um ívilnanir í þessu skyni og hvaða forsendur skuli liggja til grundvallar. Þessu er lýst ýtarlega í meðfylgjandi skýrslu, ásamt stuttri samantekt um meginefni tillagnanna.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst