Nú er Hrekkjavakan að ganga í garð og margir byrjaðir að skreyta húsin sín með graskerum og ógnvekjandi skrauti til að fagna komandi degi.
Það eru þó ekki allir jafn metnaðarfullir og hjónin Íris Sif og Einar Birgir, en segja má að þau taki Hrekkjavökuna alla leið. Þau leggja mikinn metnað í undirbúning og skreytingar og er heimilið þeirra orðið þekkt sem Hrekkjavökuhúsið.
Við fengum að heyra aðeins í þeim hjónum og spyrja þau nokkurra spurninga varðandi Hrekkjavökuna.
Hvað er það skemmtilegasta við Hrekkjavökuna að ykkar mati?
,,Það er náttúrlega fyrst og fremst að sjá hvað börnin eru spennt og hafa gaman að þessu. Svo er alltaf gaman að hræða krakkana þegar þau ganga í hús að sníkja nammi.”
Takið þið þátt á hverju ári?
,,Já við höfum gert það síðan 2018. En það kemur eflaust að því einn daginn að við munum leyfa einhverjum öðrum að taka við keflinu.”
Hvar fáið þið skrautið ykkar? Er þetta bara það sem þið hafið safnað í gegnum árin eða búið þið til sjálf?
,,Já bæði og. Við höfum yfirleitt ferðast til New Orleans á hverju ári og förum út með tómar töskur til þess að fylla þær af allskonar hrekkjavökudóti. Svo er hann Einar mjög duglegur að búa til allskonar muni og skraut.”
Eru þið með einhverjar sérstakar hefðir í kringum Hrekkjavökuna?
,,Já við fjölskyldan setjumst niður nokkur kvöld og búum til 500 nammipoka á hverju ári.”
Hvaða búningur er eftirminnilegastur í gegnum árin ?
,,Búningurinn hjá Helgu Björk í Ribsafari. Hún mætti í partý til okkar í fyrra sem látin Elísabet Englandsdrottning.”
Virkilega skemmtilegt að fá að spjalla við þau hjón, en fyrir þá sem ekki vita fer Hrekkjavakan fram fimmtudaginn 31. október. Börnum er þá heimilt að mæta í búning í skólann og mega þau ganga í hús á milli kl. 18-21 og sníkja sælgæti á þeim heimilum sem taka þátt.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst