Takk fyrir mig
29. mars, 2024
Leikfelag_spamalot_20240328_223036
Myndin er tekin í lok frumsýningarinnar í gær.

Í gær frumsýndi Leikfélag Vestmannaeyja söngleikinn Spamalot fyrir fullum sal af fólki.

Eftirvæntingin skein úr augum fólks fyrir sýningu og þegar tjöldin voru dregin frá hófst þessi líka sýningin. Greinilegt var að leiklistarmennirnir hafi lagt mikla vinnu í verkið, sem hélt áhorfendum við efnið frá fyrstu mínútu.

Verkið fjallar um leit Arthúrs konungs og riddara hringborðsins að hinu helga grali, en breska tón- og leikskáldið Eric Idle vann söngleikinn upp úr kvikmyndinni Monty Python and the Holy Grail árið 2004. Viðamikið verk og mikið líf oft á tíðum á sviðinu.

Erfitt er að taka einhvern einn út, þar sem allir leikararnir stóðu algjörlega undir væntingum. Leikmyndin var góð en leitað var í Fab Lab smiðjuna hér í Eyjum til samstarfs um leikmyndina.

Góður söngur og dans komust vel til skila auk þess sem mikið var hlegið, þess á milli. Þá má hrósa lýsingunni og hljóðið skilaði sér vel til áhorfenda.

Það er ekki sjálfgefið að eiga eins öflugt áhugaleikfélag og Vestmannaeyingar eiga. Það er því um að gera að drífa sig í leikhús um páskana.

Að endingu vil ég hrósa Stefáni Benedikt Vilhelmssyni, leikstjóra, öllum leikurunum, tæknifólki, búningahönnuðum, aðstoðarfólki en alls taka um 40 manns þátt í sýningunni, um 20 á sviði en einnig vinna margar hendur ýmis verk á bak við tjöldin. Að ógleymdri stjórn Leikfélags Vestmannaeyja.

Takk fyrir mig, kærlega.

 

Tryggvi Már Sæmundsson

 

Höfundur er ritstjóri Eyjar.net

https://eyjar.net/frumsyna-songleikinn-spamalot/

Skoða blaðið á netinu
Forsida 12 Tbl 2024
12. tbl. 2024
Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst