Listaverk í tilefni 50 ára goslokaafmælis var tekið fyrir á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja. Fundað var á mánudaginn sl.
Á fundinum var lögð fram að lokinni kynningu á vinnslustigi tillaga að breytingu á aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015-2035 vegna listaverks Ólafs Elíassonar í tilefni 50 ára goslokaafmælis Heimaeyjargossins ásamt umhverfisskýrslu áætlunar og nýtt deiliskipulag fyrir Eldfell.
Fram kemur í fundargerðinni að fulltrúar Vestmannaeyjabæjar hafi fundað með fulltrúum Stúdíó Ólafs Elíassonar þar sem fram kom að þessir aðilar munu á næstu vikum halda kynningarfund fyrir bæjarbúa. Umsagnir vegna aðalskipulagbreytingar og/eða deiliskipulags og umhverfismatsskýrslu bárust frá sex umsagnaraðilum.
Í niðurstöðu segir að ráðið samþykki fyrir sitt leyti að auglýsa tillögu að breyttu aðalskipulagi skv. skipulagslögum og tillögu að nýju deiliskipulagi. Erindið var samþykkt með þremur atkvæðum E- og H-lista gegn tveimur atkvæðum D-lista.
Fram kemur í bókun Jarls Sigurgeirssonar og Margrétar Rósar Ingólfsdóttur, fulltrúa D-listans að þau geri alvarlegar athugasemdir við það að núverandi meirihluti keyri þetta mál áfram án þess að vita heildarkostnað framkvæmdanna né endanlegt útlit minnisvarðans. Þá eru enn á ný gerðar athugasemdir við að svo mikið inngrip í náttúru Vestmannaeyja sé ekki kynnt bæjarbúum með betri hætti.
Í kjölfarið bókuðu þær Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Drífa Þöll Arnardóttir og Bryndís Gísladóttir, fulltrúar E- og H- lista. Þar segir að eins og fram kemur í innbókun mun listamaðurinn, starfsfólk hans og fulltrúar frá Landslagi kynna á næstu vikum bæjarbúum þetta metnaðarfulla verkefni.
„Umhverfis- og skipulagsráð hefur það hlutverk að vinna að aðal- og deiliskipulagi, en ekki að því sem snýr að kostnaði við verkefnið eða aðrar ákvarðanir varðandi verkið. Eðlilegt er að bæjarfulltrúar ræði það í bæjarstjórn og óski eftir því að málið sé tekið þar fyrir og munu fulltrúar meirihlutans óska eftir því fyrir næsta fund bæjarstjórnar. Það er sorglegt að fulltrúar minnihlutans í ráðinu skuli enn halda því fram að fyrirhugaður göngustígur feli í sér óafturkræfar breytingar í landslaginu. Fulltrúar minnihlutans vita betur, eða ættu að gera það, því gögnin frá listamanninum og landslagsarkitektastofunni Landslagi hafa legið fyrir í á annað ár og gera ráð fyrir að allt sem gert verður á Eldfelli verði afturkræft. Meirihluti E- og H- lista er sannfærður um að umrætt listaverk verði bænum til sóma og fagna því að nú hillir undir að hafist verði handa um þetta sögulega verkefni,” segir í bókun meirihlutans.
„Það er fráleitt að halda því fram að kjörnir fulltrúar í ráðum og nefndum eigi ekki að huga að kostnaði við framkvæmdir. Fulltrúar D-lista eru þeirrar skoðunar að fyrirhugaðar framkvæmdir séu óafturkræfar í viðkvæmu ósnortnu landslagi Eldfells. Þrátt fyrir yfirlýsingar um annað. Slíkt staðfestir m.a. umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands,” segir í bókun minnihluta umhverfis- og skipulagsráðs.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst