Það sem færri vita um lögin hans Oddgeirs
29. júní, 2024

Spjallað við Leif Geir Hafsteinsson, talsmann Alþýðutónlistarhópsins Vina og vandamanna.

Alþýðutónlistarhópurinn Vinir og vandamenn, sem að langmestu er skipaður afkomendum Oddgeirs Kristjánsonar og Ása í Bæ, hélt eftirminnilega Oddgeirstónleika sumarið 2023 í tilefni þess að fjölskylda Oddgeirs afhenti Byggðasafni Vestmannaeyja fjölmörg hljóðfæri hans til varðveislu og sýningar. Eitt af því sem vakti athygli tónleikagesta, sem þurftu að mæta rúmlega 30 mínútum fyrir tónleikana til að fá sæti og því komust mun færri að en vildu, voru fróðlegar kynningar á lögunum sem oft og tíðum innihéldu fróðleiksmola sem þeim sem þetta skrifar var ekki kunnugt um, þrátt fyrir ævilangan áhuga á tónlistararfi Eyjanna.

Í tilefni þess að Vinir og vandamenn ætla að efna til annarra og stærri Eyjatónleika í Höllinni þann 4. júlí nk., tókum við Leif Geir Hafsteinsson, forsprakka Vina og Vandamanna og barnabarn Oddgeirs Kristjánssonar, tali.

Áður en við byrjum að spjalla um lögin, hverjir skipa Vini og vandamenn að þessu sinni?  

Vinir og vandamenn eru aldrei nákvæmlega eins en kjarninn samanstendur af afkomendum Oddgeirs og Ása. Oddgeirs megin eru það við Birgir Hrafn, pabbi, Hafsteinn Guðfinnsson og Þórólfur Guðnason, Jónína Bjarnadóttir konan mín og strákarnir okkar Birgis, Kristján Steinn og Hafsteinn Breki. Ása megin er það Ólafur, Óla í Bæ, sonur Ása, og svo er Gísli Helgason sem bæði var lærisveinn Oddgeirs og vinur Ása, auðvitað ómetanlegur hornsteinn hópsins.  

Á uppákomunni þann 4. júlí, sem við kjósum nú helst að kalla þátttökutónleika, verða svo með okkur tveir góðir meðlimir til viðbótar; annars vegar Eyjasöngfuglinn Ómar Runólfsson, sonur Dúdda múrara, og hins vegar Sigurbjörn Dagbjartsson, Sibbi frændi minn úr Grindavík, sem bjó í Eyjum í nokkur ár. Vann sér það meðal annars til frægðar að mæta með gítarinn í stúkuna á nokkra bikarúrslitaleiki ÍBV í fótbolta og hjálpa þannig til að landa sigrum! Sigurbjörn tengist Oddgeiri í gegnum ömmu sína, Laufeyju Guðjónsdóttir, sem var systir Svövu eiginkonu Oddgeirs.  

Yfir að tónleikunum í fyrra. Eitt af því sem vakti athygli mína þar var að þið fluttuð nokkur lög eftir Oddgeir sem ég hafði aldrei heyrt áður. Geturðu sagt mér aðeins frá þeim? 

Já, eins og við vitum eru lög Oddgeirs mikið spiluð en þegar málið er skoðað nánar eru allmörg lög hans sem eru mjög lítið þekkt. Á meðal þeirra eru þrjú sem við tókum í fyrra og endurtökum núna: Þjóðhátíðarlagið 1941, Dagur og nótt í Dalnum, sem er stórskemmtilegt en hefur aldrei verið gefið út; allra fyrsta Þjóðhátíðarlagið frá 1933, Setjumst að sumbli, sem Lúðrasveitin tekur stundum en fáir þekkja sem sönglag; og gamankvartettinn Næturlögreglan sem þeir Oddgeir og Árni sömdu fyrir skemmtun í Akóges árið 1936.   

Síðasttalda lagið er gott dæmi um það sem ekki allir gera sér grein fyrir, að Oddgeir samdi ekki bara Þjóðhátíðarlög, enda voru þau svo sem ekki til þegar hann fór að semja löginn sín. Fyrstu lög Oddgeirs eru flest danslög fyrir danshljómsveitina sína, Jazzinn, valsar eins og Ship-o-hoj, tangóar eins og Fyrir austan mána og allnokkur fleiri. Einnig samdi hann lög fyrir leiksýningar og er Glóðir eitt af þeim. Texta við ofangreind lög og fleiri samdi Loftur Guðmundsson kennari. Síðar á ævinni gerði Oddgeir heilmikið af því að semja klassísk sönglög eða kórlög við kvæði frægra skálda, þannig að hann fékkst við ýmiss konar tónsmíðar.  

Þegar grannt er skoðað eru sennilega hátt í 15 lög eftir Oddgeir nánast óþekkt meðal almennings, sem er alveg magnað. Sem betur fer hefur faðir minn, Hafsteinn Guðfinnsson varið miklum tíma og orku í að safna gömlum skjölum, bréfum og nótnahandritum af Eyjalögunum, og þannig hafa mörg þeirra varðveist.  

Núna er það megintilgangur okkar að koma nokkrum af þessum gömlu og gleymdu Eyjalögum á framfæri og allur ágóði af þátttökutónleikunum í kvöld er að safna fé til að taka þessi lög upp og gera þau þannig aðgengileg almenningi.  

En eru þetta eingöngu lög eftir Oddgeir sem eru lítið þekkt sem þið flytjið?       

Nei, nei, það eru líka til sjaldheyrðar perlur eftir Ása í Bæ sem eiga svo sannarlega fullt erindi til almennings, bæði lög og textar. Í kvöld munum við t.d. flytja lag eftir Ása, Sævarsvísu, alveg dásamlega tilfinningaríkur ljóðabálkur sem Ási yrkir um Sævar í Gröf að honum látnum og pabbi hefur gert frábæra útsetningu við. Við hlökkum öll mjög til að flytja það fyrir Eyjamenn og heyra hvernig þeim líkar.  

Eitt af því sem ég man eftir að þú sagðir á tónleikunum í fyrra var að Ási í Bæ fór ekki að semja texta við lög Oddgeirs fyrr en á seinni hluta ferils þeirra, hvernig stóð á því?  

Já, það er rétt. Oddgeir byrjar að semja lög þegar hann er um 19 ára gamall, og það er ekki fyrr en um 18 árum síðar, eða 1948 sem Ási í Bæ fer að semja ljóð við lög Oddgeirs. Þetta vissi ég sjálfur ekki fyrr en í fyrra. Meginástæða  þessa er líklega sú að þeir Oddgeir og Árni voru svo miklir perluvinir að þeir gengu saman undir Hástein og sórust í formlegt fóstbræðralag. Mál þróast því snemma þannig að Árni verður fyrsti kostur til að yrkja texta við lög Oddgeirs, bæði gráglettnar drykkjuvísur sem og ljóðrænni verk. Samstarf sem verður að hefð sem ekki er rofin fyrr en örlögin grípa í taumana og gera Árna óstarfhæfan vegna berkla, aðeins 34 ára gamlan árið 1947. Í framhaldi af því tekur Ási við kyndlinum svo glæsilega og heldur á honum allt til enda.  

En það var ein undantekning á þessu ekki satt, sem er textinn við lagið Góða nótt?  

Jú, alveg rétt. Góða nótt er auðvitað algjör perla, lagið er samið snemma árs 1934 þegar Oddgeir er aðeins 22 ára gamall og er að mínu mati fyrsta sterka vísbendingin um hversu óvenjulega hæfileikaríkur tónlistarmaður Oddgeir var. Þarna hittir hann á laglínu, hljómagang og uppbyggingu sem er talsvert framar öðrum lögum sem hann hafði gert á þeim tíma. Stendur miklu nær því sem hann samdi síðar á ævinni, upp úr og eftir 1950. Um lagið skrifar Oddgeir sjálfur í bréfi til Árna vinar síns árið 1934:  

Ég hef nýlega samið vals er ég skýrði “Góða nótt”. Hnoðaði texta sjálfur undir og er hann svona:

Góða nótt, góða nótt 

glaðværðin dvínar fljótt 

Sveinn og mær, sveinn og mær 

síðasti dans er nær 

 

Dreymi’ ykkur sólskin og sumarblóm 

söngfugla kvakandi þýðum róm 

Sofnið rótt, sofnið rótt 

segjandi góða nótt.  

„Lagið er albesta lagið sem ég hefi samið, en kvæðið er nú svona og svona eins og þú sérð. Það er nýkomið á böllin en orðið voða vinsælt.

Þessi litla og dásamlega tilvitnun veitir okkur svo margs konar skemmtilega innsýn. Þarna sjáum við t.d. að Oddgeir sér sjálfur að þarna hefur hann hækkað rána, skapað eitthvað meira en það sem hann hafði áður gert. Einnig er gaman að sjá að lagið Góða nótt var einfaldlega samið sem vangalag fyrir ballgesti, lítill vals til að skemmta samtímafólki, en ekki sem sú dásamlega vögguvísa sem síðar hefur verið flutt í ófáum jarðarförum til að kveðja ástvini sem sofnaðir eru svefninum langa. Í þriðja lagi er gaman að sjá að Oddgeir sjálfur semur þarna upphaflega textann, sem svipar að nokkru til hinnar endanlegu gerðar, þó hann hafi aldrei viljað taka neinn höfundarheiður fyrir það.  

En aftur að þætti Ása. Þennan frumtexta Oddgeirs tók Árni til yfirferðar og skilaði af sér texta sem er talsvert nær þeirri útgáfu sem við þekkjum í dag. En þótt þeir félagar væru miklir gleðimenn og oft stutt í grallaraskap, voru þeir einstaklega metnaðarfullir og vandvirkir menn og hættu ekki að vinna í verkum sínum fyrr en þeir voru fullkomlega sáttir við útkomuna. Og það var þannig með textann við Góða nótt, að Oddgeir var einfaldlega ekki alveg sáttur.  

Hann brá  því á það ráð þegar hann var að ljúka við að búa nótnahefti sitt, Vor við sæinn til prentunar árið 1965, að leita til vinar síns Ása í Bæ, sem yfirfór textann með sinni andagift, lagði til það sem upp á vantaði og kom textanum í þá undurfallegu mynd sem við þekkjum í dag. Eftir þetta er texti lagsins alltaf eignaður þeim báðum, Árna úr Eyjum og Ása í Bæ og er þetta eina lag Oddgeirs sem samið var fyrir 1948 sem Ási er skrifaður fyrir. ”

Þessi vandvirkni og metnaður er svo eitthvað sem heldur áfram allt til enda, ekki satt?  

Jú, svo sannarlega. Það er alveg magnað að kafa inn í lög Oddgeirs sem samin eru eftir að hann naut leiðsagnar Róberts A. Ottósonar veturinn 1944 til 1945. Maður getur nánast séð það lag frá lagi á þessum tíma hvernig hann þroskast og vex sem tónskáld og gerir alltaf sífellt meiri kröfur til verka sinna. Ég held svei mér þá að Ási hafi verið jafn metnaðarfullur og kröfuharður til sinna ljóða og Oddgeir var til laganna, því þegar maður kafar í mörg bestu laga þeirra félaga eftir 1950, t.d. Heima, Vorvísa, Síldarstúlkurnar, Sólbrúnir vangar, Þar sem fyrrum, og auðvitað Ég veit þú kemur, sést að þau eru bara nánast óaðfinnanleg. Það gengur allt fullkomlega upp, hvert atkvæði er á sínum stað, hvert orð er þrungið merkingu, hver nóta er nákvæmlega eins og hún á að vera og ef einhverju væri hnikað til myndi verkið riðlast til og missa mátt.  

Það er í raun alveg ótrúlegt og mikil menningargæfa, að lítið og harðbýlt bæjarfélag eins og Vestmannaeyjar hafi getið af sér þvílíka hæfileikamenn á sama tíma, og náð að búa þeim nægilega góðan farveg til að skila af sér þessum ómetanlegu menningarverðmætum.  

Og nú eruð þið, pabbi þinn og hinir í Vinum og vandamönnum að halda kyndlinum á lofti, ekki satt? 

Við erum að reyna að leggja okkar af mörkum en sem betur fer eru margir í því og hafa verið í gegnum tíðina – það er sameiginlegt verkefni okkar allra Eyjamanna að varðveita þennan menningararf.  

Sjálfur er ég mjög þakklátur fyrir hvað pabbi er búinn að vera duglegur í þessu og mér fannst kominn tími á að ég leggði mitt af mörkum líka. Hluti af því er að halda þessa þátttökutónleika í kvöld, sem verða tvískiptir. í fyrri hlutanum munum við leggja meiri áherslu á að flytja lög sem eru minna þekkt, eins og þau þrjú sem ég nefndi í upphafi, segja aðeins frá tilurð laganna og reyna að fá tónleikagesti með okkur í ferðalag aftur í tímann. Eftir hlé munum við svo skipta meira yfir í stemningu Þjóðhátíðartjaldsins, spila mörg af vinsælustu eldri Eyjalögunum og biðja fólk um að syngja hástöfum, hvert með sínu nefi. Og eins og fram hefur komið á vef Eyjafrétta kryddum við tónleikana aðeins með því að kynna til leiks tvö ný Eyjalög. Það væri ekki verra ef fólk renndi yfir þau einu sinni eða tvisvar fyrir tónleikana svo allir geti sungið með á tónleikunum á fimmtudagskvöldið. 

Þetta lofar góðu! Eitthvað sem þú vilt segja að lokum?  

Ég vil gjarnan ítreka að allur ágóði af tónleikunum verður notaður til að fjármagna upptökur á þessum sjaldgæfari Eyjalögum þ.a mæting á tónleikana færir ekki bara skemmtun, heldur styrkir það göfuga málefni. Við munum bjóða upp á fjör, fróðleik og þá fjölskyldustemningu sem Eyjamenn þekkja svo vel af Þjóðhátíðinni. Maður er manns gaman, og það er vandfundin skemmtun sem er göfugri og tærari en að syngja tónlist sem stendur manni nærri með góðu fólki. Eða eins og Oddgeir sjálfur sagði:  

“Gleðin krefst söngs fremur öðru” 

Sjáumst sem flest í Höllinni fimmtudaginn 4. júlí!  

https://eyjar.net/nyr-hetjusongur-vina-og-vandamanna/

Facebook
LinkedIn
Pinterest
Reddit
Email
Print
Skoða blaðið á netinu
14. tbl. 2024
14. tbl. 2024

NÝBURAR

Drengur Hristov
2. ágúst 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík
Todor Hristov og Marta Möller

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

NÝBURAR

Nýburi
30. júlí 2024
Stúlka
Heimahúsi á Dalvík
Alexandra Ósk Gunnarsdóttir og Brynjar Ingi Óðinsson

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

NÝBURAR

Nýfædd stúlka.
4. júlí 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Theodóra Ágústsdóttir & Carlos Guani

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

NÝBURAR

IMG 3174
15. júlí 2024
Drengur
Balingen, Þýskalandi
Sandra Erlingsdóttir og Daníel Þór Ingason

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

NÝBURAR

tryggvason
30. júní 2024
Drengur
Reykjavík
Tryggvi Stein Ágústsson og Guðný Erla Guðnadóttir

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

NÝBURAR

nyburar
4. júlí 2024
Drengur
Reykjavík
María Rós Sigurbjörnsdóttir og Bjarni Heimir Kristinsson

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

NÝBURAR

jon
20. júní 2024
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík
Logi Snædal Jónsson og Svala Björk Hólmgeirsdóttir

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

NÝBURAR

Admin Ajax
10. júlí 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Unnur Birna Hallgrímsdóttir og Guðmundur Sundström

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

NÝBURAR

IMG 2282 940x940
29. júní 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Petrúnella Aðalheiður Kristjánsdóttir og Felix Örn Friðriksson

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

NÝBURAR

IMG 2234 800x800
28. júní 2024
Stúlka
Landspítalinn, Reykjavík
Helen Dögg Karlsdóttir og Gísli Ingi Gunnarsson

Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.

Mest lesið
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst