Eyjar.net sendi í síðustu viku spurningu til allra 10 þingmanna Suðurkjördæmis vegna synjunar HS Veitna um beiðni Eyjar.net á gögnum til rökstuðnings fyrirtækisins á hækkunum gjaldskrár á heimili í Eyjum.
Þrír þingmenn hafa svarað fyrirspurninni sem hljóðar svo:
„Samkvæmt orkulögum er veitustarfsemi takmörk sett þegar kemur að gjaldskrá þess. Veitan getur tekið sér 7% arð (eða hagnað) árlega. Nú hafa HS Veitur hafnað því að birta eða afhenda rekstraruppgjör fyrir veitustarfsemi sína (heitt vatn, kalt vatn og rafmagn) í Vestmannaeyjum. Bæði hafa Eyjar.net óskað þess ásamt því að Vestmannaeyjabær hefur í kjölfarið gert slíkt hið sama.
Þá hefur Eyjar.net óskað eftir því hvort Orkustofnun geti birt þessar upplýsingar en loðin svör þeirrar stofnunnar benda til að stofnunin hafi ekki þessi gögn undir höndum né rýni gjaldskrár veitustarfseminnar. Nú hafa Eyjar.net óskað eftir afstöðu ráðherra og bíður hennar nú.
Bent er á að HS Veitur hafa einkarétt frá ríkinu til dreifingar á vatni og rafmagni hér í Eyjum og er því augljóslega mikilvægt að gagnsæi ríki um reksturinn og traust sé milli allra hagaðila. Í dag ríkir lítið traust Vestmannaeyinga til HS Veitna. Eyjar.net fjallaði nýlega um bókhaldsgjörninga sem voru til þess fallnir að hækka handvirkt eigið fé veitustarfseminnar og þar með hækkað gjaldskrá þess. HS Veitur kusu að svara engu þegar Eyjar.net leitaði svara um það.
Hvaða augum horfir þú á málið?“
Ber skylda að upplýsa almenning, fjölmiðla og aðra opinbera aðila
Fyrstur til svara var Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks. Hann bendir á upplýsingalög en ákvæði upplýsingalaga, nr. 140/2012, taka til allrar starfsemi stjórnvalda. Lögin taka til hvers konar þjónustustarfsemi, samningagerð, setningu stjórnvaldsfyrirmæla og annarrar starfsemi, eins og segir á vef Forsætisráðuneytis.
„Samkvæmt þessum lögum, taka upplýsingalög til allrar starfsemi lögaðila sem er að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera. HS Veitur ber því skylda að upplýsa almenning, fjölmiðla og aðra opinbera aðila um rekstur félagsins og ástæður og/eða grundvöll hækkana á gjaldskrá.“
Ætlar að skoða þetta mál sérstaklega
Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir þetta athyglisvert mál.
„Fróðlegt væri að vita hvaða rök liggja að baki ákvörðun HS Veitna um að neita að birta / afhenda þessi gögn. Það skapar tortryggni að neita að afhenda þau og er fyrirtækinu ekki í hag. Að sama skapi er það fyrirtækinu ekki til framdráttar að svara ekki spurningum frá Eyjar.net.
Einnig velti ég því fyrir mér hvernig eftirliti með gjaldskrá er almennt háttað. Kannski er bara ekkert eftirlit? Þetta þarf að sjálfsögðu að skoða. Það er óeðlilegt að ekki ríki gagnsæi í þessum málum. Í mínum huga verður hið opinbera að tryggja að ekki sé verið að fara á svig við lög. Ég ætla að skoða þetta mál sérstaklega.“ segir Birgir.
Vítavert
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins segir það vítavert að HS Veitur neiti að upplýsa um eigin fjárhag í ljósi þess að fyrirtækið fer með samfélagslega mikilvæga innviði og með réttu hefði aldrei átt að einkavæða fyrirtækið.
„Það er afar mikilvægt að almenningur hafi greiðan aðgang að rafmagni og köldu og heitu vatni á sem lægstu verði. Sitjandi stjórnvöld og stjórnvöld fyrri tíðar hafa brugðist almenningi hvað þetta varðar.“ segir Ásthildur Lóa.
https://eyjar.net/raduneytid-oskar-eftir-afstodu-hs-veitna/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst