Þrjú skip fara til loðnuleitar í dag og áætlað er að hafrannsóknarskipið Árni Friðriksson haldi úr höfn í sama tilgangi eftir helgi. Sjávarútvegsráðuneytið gaf út bráðabirgðaloðnukvóta í október uppá 205 þúsund tonn og þar af koma rúmlega 120 þúsund tonn í hlut íslenskra loðnuskipa. Aðalsteinn Jónsson fjölveiðiskip Eskju á Eskifirði leitaði að loðnu í desember með litlum árangri en nú hefur samstarfshópur LÍÚ og Hafrannsóknarstofnunar ákveðið að fara af stað á ný.