Vatnsleiðsla til Vestmannaeyja var til umræðu á fundi bæjarráðs sem fram fór í gær. Þar kom fram að starfshópur, sem skipaður er fulltrúum Vestmannaeyjabæjar um lagningu nýrrar vatnslagnar til Vestmannaeyja, hefur átt í viðræðum við fulltrúa HS veitna, um undirbúning að lagningu nýrrar vatnslagnar. Jafnframt hefur Vestmannaeyjabær átt í viðræðum við innviðaráðuneytið um fjárhagslega aðkomu ríkisins að slíkri framkvæmd, sérstaklega í ljósi þess að um almannavarnamál er að ræða. Bæjarráð ræddi viðbrögð stjórnar HS veitna við athugasemdum starfshópsins um samningsdrög sem aðilar eru að vinna í sameiningu. Þá ræddi bæjarráð einnig samskipti við almannavarnardeild ríkislögreglustjóra vegna málsins.
Bæjarráð ítrekaði í niðurstöðu sinni áherslu á mikilvægi þess að ný vatnslögn verði lögð til Vestmannaeyja enda um almannavarnaaðgerð að ræða. Bæjarráð leggur áherslu á að halda áfram viðræðum við HS veitur um að hefja sem fyrst þann undirbúning sem þarf að eiga sér stað eigi áform um að ný vatnslögn verði lögð sumarið 2024 að ganga eftir. Þá er lögð áhersla á að starfshópurinn um lagningu vatnsleiðslu haldi áfram þrýstingi á innviðaráðuneytið um aðkomu ríkisins að framkvæmdinni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst