Skipstjórnarmenn skemmtiferðaskipsins Seabourn Venture þurftu að beita neyðarstöðvun við útsiglingu frá Vestmannaeyjum í ágúst í fyrra þegar skipið mætti Herjólfi. Skipstjóri Herjólfs dró úr ferð og beygði inn í Klettsvík til að forðast árekstur. Þetta kemur fram í bókun Rannsóknarnefndar samgönguslysa. Atvikið átti sér stað þann 29. ágúst í fyrra. Vísir.is greinir frá.
Þar segir enn fremur að í bókun Rannsóknarnefndarinnar komi fram að skemmtiferðaskipið hafi ætlað að fara frá bryggju klukkan 16 en brottförin hafi tafist um átta mínútur vegna þess að hafnsögumaður hafnarinnar var upptekinn. Þegar skipið lagði svo af stað var hafnsögumaðurinn meðvitaður um að Herjólfur hefði lagt af stað frá Landeyjahöfn klukkan 15:45.
Í bókuninni segir einnig að bæði hafnsögumaðurinn og skipstjóri Herjólfs hafi þysjað inn leiðsögutölvur sínar og því aðeins séð næsta umhverfi skipsins. Hafnsögumaðurinn varð þannig ekki var við Herjólf og skipstjóri Herjólfs varð ekki var við skemmtiferðaskipið fyrr en hann nálgaðist Klettsnefið.
Fram kemur að misfarist hafi að tilkynna komu Herjólfs við Faxasker eins og venjan er. Var það vegna þess að að veikur farþegi var um borð í Herjólfi, sem lá á að koma undir læknishendur,
Þá segir að þegar hafnsögumaðurinn sem var um borð í Seabourn Venture hafi orðið var við Herjólf hafi hann gefið fyrirmæli um að stöðva skipið en skipstjórinn hafi þegar verið byrjaður á því. Skipstjóri Herjólfs setti á sama tíma vélar á fulla ferð afturábak. Hann ætlaði samkvæmt bókuninni að beygja til bakborða en þegar hann sá að ekki væri nægjanlegt svigrúm til þess ákvað hann, eftir samskipti við hafnsögumann, að sigla norður fyrir Seaborn Venture inn í Klettsvíkina.
Að beiðni Rannsóknarnefndar samgönguslysa tók fánaríki skipsins, Bahamaeyjar, skýrslu af öllum skipstjórnarmönnum sem voru á stjórnpalli þegar atvikið átti sér stað. Samkvæmt bókuninni voru þeir samhljóða um atburðarrásina. Fram kom hjá skipstjóra Seaborn Venture að samskipti hafnsögumanns og skipstjórnanda Herjólfs fóru fram á íslensku sem skipstjórnarmenn á Seaborn Venture skildu ekki. Því tók tíma að koma réttum boðum til skipstjórnarmanna Seaborn Venture um hvað væri að gerast.
Í bókun segir að útgerð Herjólfs hafi eftir atvikið brýnt fyrir skipstjórnarmönnum að gæta þess að tilkynna komu skipsins við Faxasker og færa merki inn í siglingatölvuna skipsin. Þá kemur fram að til athugunar sé hjá hafnaryfirvöldum að öll skip tilkynni sig á sama stað vegna þess hversu þröng innsiglingin er.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst