Opnun tilboða vegna smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju hefur verið frestað til 8. september næstkomandi en hún átti að hefjast í dag.
Gildistími tilboða hefur jafnframt verið styttur úr 20 vikum í 18 vikur. Ríkiskaup annast útboðið fyrir hönd Vegagerðarinnar.
Alls hefur stofnunin svarað 129 fyrirspurnum sem henni hafa borist vegna útboðsins.
Í fyrirspurnum frá innlendum og erlendum aðilum hafði verið óskað eftir því að útboðstíminn yrði framlengdur um nokkrar vikur. Ríkiskaup svöruðu fyrirspurnunum fyrst þannig að ekki væri hægt að lengja frestinn en virðist hafa snúist hugur.
Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni kemur það fram í lögum um opinber innkaup að lágmarksfrestur skuli gefinn til að gera tilboð og einnig að tíminn skuli vera nægur.
Ef beiðni kemur um seinkun á opnun tilboða þarf að vera málefnaleg ástæða fyrir því að meiri tími sé gefinn til tilboðsgerðar. Sem dæmi getur það talist málefnalegt að stór hluti af tilboðsfresti falli á almennan sumarleyfistíma.