Eftir góða umhugsun og hafandi fengið hvatningu úr ýmsum áttum hef ég ákveðið að láta slag standa og gefa kost á mér í 3. – 4. sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi sem haldið verður þann 19. júní n.k.
Ég er 37 ára gamall og er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum. Ég er kvæntur Matthildi Halldórsdóttur og saman eigum við Lindu Björk sem er 19 ára og Kolbrá sem er sjö ára.
Eftir nám í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum hélt ég til Reykjavíkur og kláraði BA í stjórnmálafræði við HÍ árið 2008. Við tóku nokkur ár í höfuðborginni en að lokum flutti ég aftur heim til Eyja árið 2011 og réði mig sem framkvæmdastjóra Fiskmarkaðs Vestmannaeyja þar sem ég var í tæp fjögur ár. Í dag starfa ég sem deildarstjóri hjá Fiskistofu og samhliða því stunda ég nám á meistarastigi í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands.
Í sveitarstjórnarkosningunum 2018 leiddi ég sameiginlegt framboð Framsóknar, Samfylkingar, VG og óháðra. Ég náði kjöri í bæjarstjórn og hef á sama tíma setið sem formaður bæjarráðs. Það eru miklar áskoranir að leiða saman ólíka hópa með ólíkar skoðanir og ég tel að framsóknarfólk sé einmitt límið sem þarf til þess að leysa slík verkefni með farsælum hætti.
Starfið í bæjarstjórn hefur verið ótrúlega skemmtilegt og þroskandi en jafnframt krefjandi. Ég hef frá því ég var krakki haft mikinn áhuga á pólitík og það að geta gert samfélaginu gagn er mér mjög dýrmætt. Ég vil nú leggja mitt lóð á vogarskálarnar til þess að framboðslisti okkar framsóknarmanna verði sem sterkastur, vitandi það að 3. sætið verður baráttusætið í kosningunum í haust.
Ég býð fram þekkingu mína af sjávarútvegi og þá reynslu sem ég hef öðlast í bæjarmálunum í Vestmannaeyjum og tel að þetta gagnist flokknum og framboðslista okkar í haust. Ég hef mikinn áhuga á því að tryggja dreifða og öfluga byggð í landinu auk þess sem ég hef verið talsmaður þess að styðja við nýsköpun og sprotastarfsemi og að tryggja litlum og meðalstórum fyrirtækjum umhverfi til þess að vaxa og dafna. Fyrir þetta ætla ég að standa hér eftir sem hingað til.
Nú óska ég eftir stuðningi Vestmannaeyinga. Eins og fyrr segir fer prófkjörið fram 19. júní n.k. og þeir geta tekið þátt sem skráðir eru í flokkinn fyrir 19. maí n.k. Hægt er að skrá sig rafrænt hér: https://framsokn.is/ganga-i-flokkin/
Áfram veginn!
Njáll Ragnarsson
njalliragg@gmail.com
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst