„Við erum að aðlaga bát og búnað að þessari veiðiaðferð, erum að prófa græjurnar og byrjuðum með eina gildru til að sjá hvernig þetta kemur út. Smásaman höfum við verið að fjölga gildrunum og erum núna með tvær litlar trossur úti og eru fjórar gildrur í hvorri trossu, samtals átta gildrur. Erum að bæta búnað og tæki um borð í Friðriki Jessyni VE til að geta verið með fleiri gildrur undir,“ segir Hörður Baldvinsson, framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja sem stýrir tilraunaveiðum í gildrur hér við Eyjar.
„Við höfum farið út sjö sinnum og lagt á jafn mörgum stöðum í kringum Heimaey. Reynt fyrir okkur á Rófuboðanum, Klakknum, Vorsabæjarmiðunum og gær lögðum við við Bjarnarey og Elliðaey, á Flatahrauninu, við Álsey og Sandagrunni. Einnig lögðum við humargildrur í tilraunaskyni vegna verkefnis sem á að fara af stað á næsta ári á þekktri humarslóð í Háfadýpinu en fengum því miður engan humar,“ segir Hörður sem segir að verkefnið í heild sinni ganga mjög vel.
Fyrst voru þeir fjórir í áhöfn en eru tveir í dag sem Hörður segir að sé nóg. „Þetta gengur mjög hratt fyrir sig og við erum að útbúa búnað til að geta verið með talsvert fleiri gildrur í hverri trossu. Í Kanada eru stærstu skipin með allt að 600 gildrur en við í augnablikinu einungis með átta. Við erum að athuga með búnað þannig að unnt verði að einn maður geti lagt og dregið gildrurnar.“
Prófa mismunandi beitu
Einnig hafa þeir prófað mismunandi beitu, smokkfisk, síld, makríl, loðnu og eru að kanna hvað veiðir mest og hvað lyktin helst lengi. „Auk þess erum við líka með ljós sem reynst hefur vel erlendis til að auka veiðina. Þetta skráum við allt saman og annað sem tengist umhverfinu, straumhraða, hitastig og hvað gildran veiðir.“
Hörður segir veiðina hafa gengið vonum framar og hefur komið þeim á óvart hvað margar tegundir sækja í gildrurnar. „Við höfum fengið þorsk, keilu, löngu, steinbít, einn furðufisk en t.d. enga ýsu. Við vitum að á þessum tíma er ekki mikill fiskur við Eyjar en við erum að þreifa okkur áfram með réttu handtökin og að allt sé eins öruggt og hægt er.“
Umfangið er mikið, hver gildra er svo kölluð „Slinky pots“ sem lítur eins út og víður hólkur og er mannhæðarhár. Veiðunum fylgja færi, drekar og baujur eins og á hefðbundnum neta- og línuveiðum. „Við fengum Hampiðjuna til að hanna búnað fyrir okkur sem heldur ákveðnu bili á milli gildranna sem hægt er að auka eða minnka eftir þörfum. Ég vil koma á framfæri þakklæti til Viðars Elíassonar sem lánaði okkur baujur og dreka í þetta verkefni“
Læra rétt vinnubrögð
Hörður leggur áherslu á að ekki er verið að eltast við magn í þessum hluta verkefnisins heldur að læra og tileinka okkur rétt vinnubrögð og gæta öryggis. „Að mörgu er að hyggja, það er ekki nóg að veiða fiskinn. Eftir fyrsta róðurinn fengum við viðvörun frá Fiskistofu sem tilkynnti okkur að Það væri ekki nóg að hafa kvóta til rannsóknarveiða heldur þyrftum við einnig að hafa gilt veiðileyfi sem við höfðum ekki. Því var kippt snarlega í liðinn. Öll gögn um veiðarnar fara svo í gegnum Hafrannsóknarstofnun.“
Hörður segir gildruveiðar stundaðar víða um heim og Kanadamenn og Norðmenn hafi þróað veiðar í gildrur í mörg ár. „Þetta eru vistvænar veiðar, spara orku og ferskari verður fiskurinn vart ekki. Kominn jafnvel á diskinn örfáum klukkutímum eftir að hann er veiddur sprelllifandi. Í síðustu tveimur róðrum höfum við lagt inn á Fiskmarkaðinn og við fréttum að veitingastaðurinn Gott hefði keypt fisk frá okkur.“
Að mati Harðar er margt að skoða og allt tekur þetta tíma. Hvenær gengur fiskurinn í gildruna? Hvað oft þarf að vitja þeirra oft og hvaða beita veiðir best? „Í Kanada kíkja þeir stundum á gildrurnar á tíu til ellefu daga fresti en við höfum gert það einu sinni til tvisvar í viku. Það eru ýmsar hugmyndir um beitu og við skoðum allt. Við erum með ljós sem þolir allt að 1200 metra dýpi og virðast þær gildrur sem eru með ljósum veiða meira en gildrur með hefðbundna beitu.“
Hörður segir þetta er mjög skemmtilegt og spennandi og kannski verði fiskveiðar í gildrur afgerandi þáttur í útgerð hér á landi eftir nokkur ár. „Eins og staðan er í dag, þá erum við að bíða eftir svokölluðum beituklukkum sem skammta út beituna eftir þörfum ásamt því að veiðin fari að glæðast hér við eyjar og þá verðum við klárir með mun meira af gildrum. Þetta verkefni er samvinnuverkefni Þekkingarseturs Vestmannaeyja, Hampiðjunnar, Matís og Félags smábátaeigenda og er styrkt af Uppbyggingarsjóði Sambands Sveitarfélaga á Suðurlandi og Matvælasjóði.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst