Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja var stofnað árið 1862. Tók félagið við umboði Tryggingamiðstöðvarinnar, seinna TM þegar hún var stofnuð í desember 1956. Félögin sameinast árið 1994 og Bátaábyrgðarfélagið lagt niður. „Jóhann Friðfinnsson var umboðsmaður fyrir bæði Bátaábyrgðarfélagið og TM og tók Guðbjörg Karlsdóttir við af honum. Á þessum árum hafa ekki verið margir starfsmenn en þeir eiga f lestir langan starfsaldur,“ segir Drífa Kristjánsdóttir, tryggingaráðgjafi sem er gott dæmi um það. Greinilega gott að vinna hjá félaginu. Þegar Jóhann hætti 1991 byrjaði Drífa og með henni var Guðbjörg Karlsdóttir sem tók við af Jóhanni. Sísí, (Sigríður Högnadóttir) byrjaði árið 2000 og þá voru þær þrjár en í dag eru þær tvær, Drífa og Guðbjörg Helgadóttir sem byrjaði á síðasta ári. Drífa er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum sem kemur sér oft vel í hennar starfi, að þekkja sitt heimafólk. Drífa hefur tekið mörg námskeið, fór í Tryggingaskólann og tók þátt í Máttur kvenna. „Allt hefur þetta eflt mig í starfi auk reynslunnar sem safnast upp með árunum. Við höfum líka sinnt ýmsu. Vorum í nokkur ár með umboð fyrir Bifreiðaskoðun, afhentum númeraplötur og vorum með ýmsar tryggingar sem tengjast farartækjum og skipum.
„Við hjá TM leggjum mikla áherslu á framúrskarandi ráðgjöf og tjónaþjónustu. Við tryggjum allt frá reiðhjólum upp í togara og reynum að gera það vel. Njótum þess að fá fólk inn til okkar og veita góða þjónustu,“ sem Drífa segir þeirra helsta keppikefli. „Okkar sterkasta hlið er metnaðurinn að bjóða upp á góða þjónustu í stóru sem smáu.“ Drífa segir sambandið gott við höfuðstöðvarnar og þær njóti mikils trausts. „Við tilheyrum einstaklingsráðgjöfinni innan TM og höfum fullan stuðning stjórnendanna.
Erum eitt af þremur útibúum TM úti á landi, í Keflavík, á Akureyri og hér. Við erum starfsmenn deildarinnar og ótrúlegt hvað traustið er mikið og sambandið gott.“ Drífa segir mikinn fjölda mála koma inn á borð til þeirra, tjón á bílum og heimilum, brunatjón og annað sem hendir fólk en færri kíkja við hjá þeim á skrifstofuna. Á móti koma meiri tölvusamskipti og tölvupóstum fjölgar. „Þetta breyttist mikið eftir covid. Þjónustan fer miklu meira í gegnum netið og nóg að við séum bara tvær en ekki þrjú og fjögur eins og áður.“ Þar segir Drífa að hægt sé bóka tjón og fara inn á netspjallið til að fá nánari upplýsingar. „Þar komum við inn í og erum að afgreiða viðskiptavini um allt land. Símtöl koma alveg eins til okkar og til þeirra í Reykjavík. Við erum hluti af símahópi TM og ég er að afgreiða fólk á Akureyri og Hvammstanga svo dæmi séu tekin. Við njótum þó ákveðins frjálsræðis og mér líkar þetta vel. Annars væri ég ekki búin vera hérna í 34 ár,“ segir Drífa, andlit TM í Vestmannaeyjum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst