Á síðasta ári fjárfesti Vinnslustöðin fyrir rúma 3 milljarða, aðallega í uppbyggingu á Kima, nýbyggingu fyrir saltfisk- og upppsjávarvinnslu. Byggingin er viðbygging við Krók, þar sem uppsjávarvinnslan og mótorhúsið er nú staðsett. Ef skoðuð eru síðustu 10 ár er varðar fjárfestingar í rekstrarfjármunum og innkaup og þjónusta í póstnúmeri 900 þá er það samtals 25,9 milljarðar. Fjárfestingar Vinnslustöðvarinnar í tækjum, búnaði og byggingum nema tæpum 16 milljörðum. Þeim lýkur á þessu ári, en frágangur á Kima kostar um 1 milljarð til viðbótar. Á árunum 2015 – 2019 endurbyggði félagið uppsjávarvinnsluna ásamt því að byggja Breka VE. Sú endurbygging kostaði 9 milljarða.
Óvissa undir vinstristjórn Jóhönnu
Líkt og sjá má á súluritinu skera árin 2011 til 2014 sig nokkuð úr. Aðspurður um hvers vegna segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri að það sem skýri litlar fjárfestingar áranna 2011-2014 hafi verið óvissa undir vinstristjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.
„Þá var ætlunin að setja gríðarlega há veiðigjöld á sjávarútveginn. Þá reiknaði ég það út að undir þeim fyrirætlunum yrði Vinnslustöðin gjaldþrota á 7 árum, ef ég man rétt. Nú er Vinnslustöðin mun sterkari sem betur fer. Annað áhugavert er að við höfum fjárfest fyrir um 19 milljarða í fyrirtækjum, aðallega fyrirtækjum í Eyjum eins og Ós, Leo Seafood, Huginn, Glófaxa, Ufsabergi og Stíganda ef ég man allt rétt,” segir Binni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst