Veiði hefur gengið vel hjá ísfisktogurum Síldarvinnslusamstæðunnar og hafa þeir jafnvel komið til löndunar tvisvar í vikunni. Rætt er við skipstjórana á vefsíðu Síldarvinnslunnar í dag. Þar eru þeir spurðir frétta af veiðunum en Bergey VE og Vestmannaey VE lönduðu á miðvikudag í Vestmannaeyjum, Jóhanna Gísladóttir GK landaði einnig á miðvikudag í Grindavík og Gullver NS landaði í gær á Seyðisfirði.
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, var ánægður með veiðina. „Við vorum með fullan bát og aflinn var mjög blandaður. Við hófum veiðar í túrnum við Eldey og síðan var farið á Víkina og túrinn kláraður. Veiðin einkenndist af góðum skotum en síðan var rólegt á milli. Það verður að segjast að þetta gekk bara vel,” sagði Jón.
Egill Guðni Guðnason, skipstjóri á Vestmannaey, sagði að vikan hefði verið góð. „Þessi túr hjá okkur var annar túrinn í vikunni og hann var mjög stuttur. Aflinn var um 30 tonn og hér var um kvótavæna blöndu að ræða. Við kvörtum ekki,” sagði Egill Guðni.
Smári Rúnar Hjálmtýsson, skipstjóri á Jóhönnu Gísladóttur, sagði að túrinn hefði verið góður. „Við byrjuðum á að reyna við ýsu og ufsa við Eldeyna en þar var heldur rólegt. Þá færðum við okkur út á Eldeyjarbankann og þar var prýðileg karfaveiði. Það veiddist þar vel yfir dagtímann en það var minna á næturnar. Þetta var annar túrinn okkar í vikunni og varla hægt að vera annað en nokkuð ánægður,” sagði Smári Rúnar.
Friðrik Ingason, skipstjóri á Gullver, sagði að þar um borð væru menn sáttir við veiðina. „Þessi túr gekk bara býsna vel. Það var farið út á laugardag og byrjað að veiða á Glettinganesflaki. Þar var aflinn blandaður. Síðan fórum við í Seyðisfjarðardýpið og þar var hörkuþorskveiði í einn og hálfan sólarhring. Þorkurinn sem þarna fékkst var mjög góður og fallegur. Í lokin var aftur haldið á Glettinganesgrunn og þar voru tekin tvö hol. Aflinn var 118 tonn eða fullfermi,” sagði Friðrik.
Öll skipin héldu til veiða á ný síðdegis í gær eða í gærkvöldi.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst