Nú stendur yfir umfangsmikill leiðangur á vegum Hafrannsóknastofnunar með það að markmiði að mæla stærð hrygningarstofns loðnu. Leiðangurinn er framhald mælinga sem voru gerðar austan við land dagana 17.-20. janúar. Með þessu móti er vonast eftir að ná heildarmælingu á stofninum sem leitt getur til nýrrar ráðgjafar.
Í leiðangrinum eru alls 8 skip og er gert ráð fyrir að honum ljúki um eða eftir næstu helgi. Alls eru sex skip við mælingar, en það eru rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson ásamt uppsjávarveiðskipunum Aðalsteini Jónssyni SU, Ásgrími Halldórssyni SF, Berki NK og Jónu Eðvalds SF. Til viðbótar eru leitarskipin Bjarni Ólafsson AK og Hákon EA. Hafrannsóknastofnun hefur mannskap í fimm þessara skipa.
Fjögur skip eru nú að störfum fyrir austan land og munu mæla til vesturs, þrjú byrja á Vestfjarðamiðum og halda til austurs og loks er eitt skipanna (Jóna Eðvalds) við leit og mælingar austan við hefðbundið mælisvæði til að kanna hvort loðna sé mögulega að ganga suður á þeirri slóð (mynd).
Nánar má fylgjast með framgangi leiðangursins á https://skip.hafro.is/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst