Breki VE kom til hafnar í gærmorgun (þriðjudag 8. september) með 440 kör af góðum afla eftir veiðiferð þar sem rólegt var framan af og bræla en endaði vel í lokin á Þórsbanka.
Tíðindum sætir að Gísli Matthías Sigmarsson var í fyrsta sinn yfirvélstjóri á togaranum og í sama túr var Ríkarður Magnússon yfirstýrimaður. Þeir félagar eru meðal yngstu yfirmanna í flota Vinnslustöðvarinnar og þarna banka því fulltrúar yngri kynslóða á dyr þeirra eldri (og reyndari!) á sínum fagsviðum.
Gísli Matthías útskrifaðist úr vélfræðinámi 2015, hefur verið á hinum og þessum bátum í Eyjum, eina loðnuvertíð á Sighvati Bjarnasyni VE og síðan 1. vélstjóri á Breka frá því í október 2018. Með sér í fyrsta túr yfirvélstjóra hafði hann mann með mikla reynslu og þekkingu, Finn Kristinsson vélfræðing og yfirvélstjóra á Breka. Finnur dvaldi í Kína forðum og var yfireftirlitsmaður með smíði Breka VE og Páls Pálssonar ÍS fyrir hönd Vinnslustöðvarinnar og Hraðfrystihússins Gunnvar í Hnífsdal. Finnur var áhöfn Breka á heimleið frá Kína.
Ríkarður Magnússon var líka í áhöfn Breka heim frá Kína, þá 2. stýrimaður skipsins. Hann er nú 1. stýrimaður og hefur leyst af sem yfirstýrimaður.
Ríkarður er sonur Magnúsar skipstjóra á Breka og þeir feðgar voru áður samtímis á Drangavík VE. Þar var Ríkarður stýrimaður en leysti föður sinn af sem skipstjóri þegar Magnús fór að sinna Brekamálum hér heima og í kínversku skipasmíðastöðinni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst