Alexander Júlíusson er ungur frumkvöðull sem vakið hefur athygli fyrir einstaka hönnun Íslandskerta. OURA-kertin, sem eru í laginu eins og Ísland, hafa fengið afar góðar viðtökur fyrir einstaka fegurð og táknræna tenginu við landið. Alexander sýndi hönnun sína á handverksmarkaðnum í Höllinni í nóvember síðastliðnum. Við heyrðum í Alexander og fengum að heyra hvernig hugmyndin af hönnuninni kviknaði.
„Hugmyndin kviknaði út frá ást minni á náttúru Íslands og lönguninni til að búa til vöru sem fangar einstakan karakter landsins,“ segir Alexander. „Ég vildi skapa eitthvað sem væri bæði hagnýtt og fallegt, sem minnir fólk á fegurðina og hrjúfleikann sem einkennir Ísland. OURA-kertin eru hönnuð til að vera táknmynd þessara tengsla með einföldum og hreinum línum sem eru innblásnar af íslenskri náttúru og menningu.“
Alexander segir viðtökurnar hafa verið einstaklega jákvæðar og bætir við að hann sé afar þakklátur fyrir það. Kertin eru hönnuð með ferðafólk í huga sem vill taka brot af Íslandi með sér heim. Það er gaman að sjá hversu margir tengjast sögunni á bak við kertin og fyrir því sem þau standa. „Ég er einnig mjög þakklátur kertaverksmiðjunni í Eyjum, sem hefur verið ómetanleg í aðstoð sinni við að gera þessa hugmynd að veruleika. Reynsla þeirra og þekking hafa skipt sköpum fyrir verkefnið.“
Kertin eru nú fáanleg í Epal á Keflavíkurflugvelli og unnið er að aukinni dreifingu innanlands.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst