Í morgun skrifuðu Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra og Júlíus Jónsson, forstjóri HS Veitna, undir viljayfirlýsingu vegna uppsetningu varmadælu í Vestmannaeyjum. Verkefnið snýst um að tengja varmadælu við veitukerfi fjarvarmaveitu HS Veitna í Vestmannaeyjum og nota sjó sem varmagjafa. Gerð hefur verið úttekt á verkefninu og er ávinningur af því talinn vera margvíslegur; má nefna áætlaða a.m.k. 10% lækkun á orkuverði til íbúa á næstu fimm árum.
Samkvæmt yfirlýsingunni er gert ráð fyrir aðkomu ríkisins með stofnstyrk til verkefnisins að fjárhæð 300 milljón krónur, eða sem nemur áætluðum mismun á niðurgreiðslum kyntrar veitu og beinnar rafhitunar í fjögur ár. Styrkurinn er með fyrirvara um samþykki Alþingis á fjárlögum og verður hann greiddur í tveimur jöfnum greiðslum á árunum 2017 og 2018. Markmið verkefnisins er enn fremur að allir notendur í Vestmannaeyjum verði tengdir inn á kerfið.
Í skýrslu starfshóps sem skilaði tillögum til ráðherra í mars 2016 kemur fram að varmadælur geti dregið verulega úr raforkuþörf kyntra veitna og þar með lækkað rekstarkostnað umtalsvert. Jafnframt er í skýrslunni lagt til að skoðaðir verði möguleikar á því að ríkið veiti fjárfestingastyrki til slíkra verkefna og tryggi þar með rekstrarumhverfi veitnanna, leggi þær út í slíkar fjárfestingar. Viljayfirlýsingin sem undirrituð var í dag er í samræmi við tillögur skýrslunnar og í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar á sviði orku- og umhverfismála.
Markmið verkefnisins eru að tryggja orkuöryggi fjarvarmaveitunnar í Vestmanneyjum, gera hana hagkvæmari í rekstri, tryggja reksturinn til lengri tíma án þess að um rafhitun sé að ræða og að draga úr raforkuþörf veitunnar um allt að 67%.
Með uppsetningu varmadælu er farið af skerðanlegri orku yfir á forgangsorku og felur það bæði í sér aukið orkuöryggi (minni skerðingar) og kemur í veg fyrir olíunotkun, losun gróðurhúsalofttegunda og umhverfismengun sem ella kæmi til þegar raforka er skert.
Árlegur raforkusparnaður við varmadælu í Vestmannaeyjum er áætlaður um 45 GWh sem þýðir að um 7 MW losna í raforkukerfinu við tilkomu varmadælunnar.
Um leið skrifuðu Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar og Friðrik Friðriksson framkvæmdastjóri hjá HS Orku undir samning á sölu Landsvirkjunar á tryggu rafmagni til HS Veitna vegna verkefnisins en sparnaðurinn nemur einni 7 MW virkjun.
Einnig skrifuðu Friðrik og Júlíus undir samning á kaupum HS Veitna á raforku frá HS Orku sem þarf til að knýja varmadælurnar.