Atvinnuvegaráðuneytið setti fyrir þó nokkru síðan af stað sameiginlegt norrænt verkefni um verðmyndun í uppsjávarveiðum í Norður-Atlantshafi. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, greindi frá þessu á Alþingi í síðustu viku og sagt er frá á vef Fiskifrétta.
Hann var þar að svara fyrirspurn frá Loga Einarssyni, formanni Samfylkingar, um viðbrögð við tíðindum sem bárust í mars árið 2019 þegar fram kom „í tölum frá Verðlagsstofu skiptaverðs að meðalverð íslenskra skipa sem seldu kolmunna til bræðslu var 25 kr. en 36 kr. hjá norskum skipum. Það sem er ekki síður áhugavert við þetta dæmi er að veiðarnar áttu sér stað á sama tíma, úr sömu torfu og var aflað á land í sömu verksmiðju, á sama degi,“ að því er Logi sagði.
Kristján Þór sagði muninn vissulega hafa verið sláandi og hann hafi heyrt ýmsar skýringar á þessu af hálfu íslenskra fyrirtækja. Hann segist þó ekki geta dæmt um þetta frekar en aðrir og taldi því rétt að ýta af stað þessari samnorrænu vinnu, sem Daði Már Kristófersson auðlindahagfræðingur hefur forystu um.
„En því miður hef ég ekki fengið niðurstöðu úr þeirri vinnu enn.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst