Verkfall í tveimur fiskimjölsverksmiðjum í Vestmannaeyjum var samþykkt í atkvæðagreiðslu í dag. Atkvæði bræðslumanna á Austurlandi verða talin í fyrramálið. Talningu atkvæða frá starfsmönnum í bræðslum Ísfélagsins og Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum lauk klukkan hálf níu í kvöld. Starfsmenn í bræðslunum tveimur samþykktu með yfirgnæfandi meirihluta að boða til verkfalls 15. febrúar næstkomandi. Verkfallið er ótímabundið og mun því hafa áhrif á loðnuvertíð sem er í þann mund að ná hámarki.