Á fundi framkvæmda- og hafnarráðs í vikunni fór Brynjar Ólafsson, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs yfir tímalínu á framkvæmdum vegna gervigrass og flóðlýsingar á Hásteinsvelli.
Fyrir liggur að ástand afvötnunar á vellinum eru góðar og ekki er þörf á að hrófla við undirlagi og drenkerfi. Búið er að færa girðingar við skammhliðar vallarins og stækka hann til að uppfylla kröfur KSÍ. Stefnt er að hefja jarðvegvinnu fyrir áramót. Verklok eru áætluð í maí. Fyrir liggur að fyrstu heimaleikir gætu riðlast til eins og hjá öðrum félögum sem hafa farið í að leggja gervigras á keppnisvelli sína.
Formaður ÍBV, framkvæmdastjóri ÍBV og fulltrúar framkvæmdanefndar ÍBV hafa verið í samtali við tæknideildina vegna verkefnisins. Framkvæmdastjóri mun vera í samtali og samráði við ofangreinda aðila á meðan framkvæmd stendur yfir. Framkvæmdin er á forræði Vestmannaeyjabæjar, segir í fundargerðinni.
Í afgreiðslu ráðsins segir að ráðið þakki kynninguna og fagnar því að bætt vetraraðstaða til knattspyrnuiðkunnar verði tilbúin næsta vor.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst