Brynjar Ólafsson framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar og Ólafur Einarsson hjá Þjótanda skrifuðu nýverið undir verksamning vegna jarðvinnu og lagna á Hásteinsvelli. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu Vestmannaeyjabæjar.
Framkvæmdin felur í sér að fjarlægja náttúrugras af vallarsvæðinu ásamt lífrænu undirlagi þess, jarðvegsskipta undir nýju yfirborði. Framkvæmdin felst einnig í lagningu fráveitu- og vatnslagna, fullnaðarfrágangi vatnsúðarakerfis, rafstrengja í ljósamöstur, fullnaðarfrágangi yfirborðs undirbyggingar undir gervigras og helluleggja kant umhverfis völlinn. Framkvæmdum skal ljúka eigi síðar en 1. apríl 2025, segir ennfremur í fréttinni.
Þá hefur aðalstjórn ÍBV-íþróttafélags boðað til félagsfundar, mánudaginn 27. janúar kl 20:00 í Týsheimilinu. Þar á að kynna framkvæmdir við Hásteinsvöll.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst