„Við erum mjög stolt af þessari viðurkenningu, að vera Framúrskarandi fyrirtæki og það áttunda árið í röð,“ segir Marinó Sigursteinsson, aðaleigandi og fyrrum framkvæmdastjóri Miðstöðvarinnar sem er eitt þeirra 19 fyrirtækja í Vestmannaeyjum sem hlaut viðurkenninguna í ár. „Annað í þessu er að þú kemst ekki inn nema að standast skilyrðin í þrjú ár. Ef við dettum út tekur það okkur þrjú ár að komast inn aftur.“
Creditinfo veitir viðurkenninguna, Framúrskarandi fyrirtæki með ákveðnum kröfum og Keldan og Viðskiptablaðið veita viðurkenningu fyrir hagnað. „Við höfum fengið viðurkenningar frá þeim báðum öll átta árin. Þetta er ekki bara stoltið, viðurkenningarnar halda okkur á tánum og að gera betur á hverju ári. Þess vegna er ég mjög montinn og í skýjunum með þessar viðurkenningar. Þær sýna að við erum á réttri braut og handverkið er á uppleið hér í Vestmannaeyjum. Í dag vinna 23 hjá Miðstöðinni og níu eru að læra pípulagnir í Framhaldsskólanum sem er ekki bara styrkur fyrir okkur heldur bæjarfélagið allt. Við erum með frábært starfsfólk og það ber að þakka. Án þeirra næðum við ekki þessum árangri,“ segir Marinó sem er bjartsýnn á framtíðina.
„Það styttist í að ég dragi mig í hlé en það eru öflugir menn sem taka við. Verkefnin eru næg og veltan eykst með hverju árinu þannig að ég er sáttur þegar ég lít til baka.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst