Undanfarna tvo daga hefur dunið á landsmönnum síbylja úr öllum fjölmiðlum þar sem hamast er gegn áformuðum breytingum á kvótakerfinu. Tilefnið er skýrsla svonefndar sérfræðinganefndar um hagræn áhrif af tillögum ríkisstjórnarinnar. Leiddur er fram hver kvótastaurinn á fætur öðrum til þess að vitna um „atlöguna að sjávarútveginum“ sem felst í því að breyta framsali og veðsetningu aflaheimilda og að takmarka afnotatímann. Sérfræðingarnir segja að öll þessi atriði minnki hagnaðinn í greininni.