Fyrir rúmum tveimur áratugum síðan tók félagsfólk Verslunarmannafélags Vestmannaeyja þá ákvörðun að sameinast VR. Slíkar ákvarðanir eru aldrei teknar nema að undangengnu umfangsmiklu hagsmunamati og er auðvelt að ímynda sér að árin áður hafi einkennst af ítarlegum umræðum um kosti og galla slíkrar sameiningar. Hættan er augljós, því þegar sameiningar innibera annars vegar landsbyggðareiningar og hins vegar höfuðborgarsvæðið, þá eiga hagsmunir hins síðarnefnda oft til að verða ofan á.
Verslunarmannafélag Vestamannaeyja var ekki eitt um að standa frammi fyrir ákvörðun sem þessari enda höfðu félög í öðrum landshlutum þegar sameinast VR. Almennt talið hafa þessar sameiningar heppnast með ágætum, ekki síst þar sem lögð hefur verið áhersla á að halda úti þjónustu á hverju svæði fyrir sig. Hins vegar má alltaf velta því upp í hversu góðum tengslum forysta VR hverju sinni er við hið stóra félagssvæði félagsins.
Mér er mikið í mun að vera formaður allra VR-félaga og horfi ég þar meðal annars til hins stóra félagssvæðis VR og þeirra ólíku aðstæðna sem fólk býr við í mismunandi landshlutum. Ég legg áherslu á að viðhalda þjónustu í Vestmannaeyjum, en einnig að formaður láti sig staðbundin mál sem tengjast kjörum félagsfólks varða á. Ég mun leggja mig fram um að verja tíma í Vestmannaeyjum, líkt og annars staðar, heimsækja vinnustaði VR félaga í bænum og tryggja að sjónarmið þeirra séu til hliðsjónar í stefnumótun um skipulag félagsins, sem stendur fyrir dyrum.
Framundan eru kosningar í VR og óska ég eftir umboði til að leiða félagið áfram, en ég tók við stjórnartaumunum þegar forveri minn tók sæti á Alþingi laust fyrir áramót. Ég hvet VR félaga í Vestmannaeyjum til að nýta kosningarétt sinn í félaginu og kjósa bæði formann og stjórnarfólk. Rafrænar kosningar fara fram 6. til 13. mars nk. Allar nánari upplýsingar má finna á vef VR, vr.is, og á minni síðu, halla.is.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst