Þegar litið er tilbaka yfir árið sem nú er að kveðja blasir við að flest gengur okkur í haginn hér í Vestmannaeyjum. Mikil uppbygging á vegum fólks og fyrirtækja, atvinnustigið hátt, tekjur einstaklinga þær hæstu á landinu, staða og afkoma sveitarfélagsins afar góð á alla mælikvarða, íbúum að fjölga – erum 4,702 þegar þetta er skrifað og fer að glitta í að við verðum 5000. Og svona mætti lengi áfram telja.
Það er því af mörgu að taka ef maður vill tilgreina einstaka jákvæða þætti í þróun mála hér í okkar góða bæ á árinu sem er að líða – en mig langar að þessu sinni að nefna sérstaklega þrennt:
Það hefur verið með miklum ólíkindum að fylgjast með gangi mála hjá Laxey. Hér er líklega um að ræða stærstu einstöku fjárfestingu í atvinnustarfsemi í sögu Vestmannaeyja. Maður hefur horft í forundran á hraðann og kraftinn í uppbyggingunni og nú fyrir skömmu náðist sá merki áfangi að fyrstu laxaseiðin voru flutt úr seiðaeldisstöðinni inni í Botni í áframeldi í kerjunum í Viðlagafjöru. Ég ætla ekki að tíunda hér framkvæmdirnar sjálfar, hina miklu verðmætasköpun sem er framundan eða hversu vel hefur gengið að fá inn nýja hluthafa og tryggja aðra fjármögnun – sem þó eitt og sér sýnir hversu háa einkunn þetta verkefni fær. Það er eiginlega sagan á bak við þetta sem mér finnst mest heillandi.
Sá jákvæði og uppbyggilegi grunnur að þessu máli sem felst í því að Sigurjón Óskarsson og fjölskylda, sem hurfu fyrir skömmu úr útgerð eftir margar kynslóðir í þeirri grein, skuli nota afraksturinn til fjárfestinga í nýrri atvinnugrein í sinni heimabyggð. Þetta er gleðiefni og til mikillar fyrirmyndar.
En það eru ekki bara gamlar Eyjafjölskyldur í margar kynslóðir sem standa fyrir framförunum heldur líka ‘’nýir’’ Eyjamenn. Það var mikill hvalreki fyrir bæinn að framkvæmdahjónin Kristján Ríkharðsson og Margrét Skúladóttir Sigurz skyldu festa hér yndi sitt. Öllum er kunnug glæsileg uppbygging þeirra á úrvals gistirými út um allan bæ – sem þau síðan seldu en láta þó ekki staðar numið, nema síður sé. Á nýju ári hefjast á þeirra vegum framkvæmdir við uppbyggingu á baðlóni og lúxushóteli ofan við Skansfjöru. Þetta mun alveg örugglega skjóta nýrri og sterkri stoð undir ferðamennskuna í Eyjum; laða að nýja ‘’tegund’’ gesta og lengja ferðamannatímabilið.
En allra skemmtilegast – og líklega mikilvægast til framtíðar litið – er sá mikli árangur sem er að nást í menntun og þroska barnanna okkar með verkefninu Kveikjum neistann í Grunnskóla Vestmannaeyja. Þetta verkefni hlaut sérstaka viðurkenningu á Degi íslenskrar tungu núna í nóvember – að verðleikum. Verkefnið hefur ekki bara skilað sér í stórbættum lestrarárangri barna heldur líka í bættri líðan þeirra. Þessi árangur hefur vakið mikla athygli út um allt land – og til að mynda hefur Kópavogsbær ákveðið að fylgja í kjölfar okkar hér í Eyjum strax á næsta ári.
Það er sem sagt yfir mörgu að gleðjast á því ári sem er að kveðja – og til margs að hlakka á því sem er að koma!
Ég þakka ykkur öllum fyrir samfylgdina á líðandi ári – og fyrir hönd bæjarstjórnar Vestmannaeyja óska ég ykkur gæfu og gengis á því ári sem nú fer í hönd.
Páll Magnússon
forseti bæjarstjórnar
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst