Óvissa um stöðu ÍBV-íþróttafélags er mikið rædd meðal áhugafólks um íþróttir í Vestmannaeyjum. Félagið hefur staðið í stórum framkvæmdum, ekki liggur fyrir uppgjör þjóðhátíðarinnar í sumar, félagið hefur sagt upp vallarsamningnum við bæinn og sagt upp starfsfólki í Týsheimilinu. Enn er ekki búið að skipa í þjóðhátíðarnefnd og nýr framkvæmdastjóri hefur ekki verið ráðinn. Eyjafréttir höfðu samband við formann félagsins sem sagði lítið um stöðuna að segja á þessari stundu en laugardaginn 17. nóvember verði boðað til fundar þar sem áhugasamir eiga að fá svör við þeim spurningum sem á þeim brenna.