Uppsjávarskipið Huginn VE frá Vestmannaeyjum hélt í síðustu viku á tilraunaveiðar á makríl við sunnanvert landið og eru sérfræðingar frá Hafrannsóknastofnun með í för. Ætlunin er að kanna hvort makríl sé þar að finna í einhverju verulegu magni. Útgerð Hugins átti frumkvæði að leiðangrinum. Frá þessu er skýrt í nýjustu Fiskifréttum.
Óvenjumikið af makríl hefur veiðst með norsk-íslensku síldinni í sumar fyrir austan land innan íslensku lögsögunnar. Hlutur makríls í afla síldarskipanna hefur verið frá 50% og upp í 70-80%. Það segir sína sögu, að það sem af er árinu hafa íslensk skip veitt 23 þúsund tonn af makríl, þar af tæp 18 þúsund tonn í júlímánuði einum. Til samanburðar má nefna að allt árið í fyrra lönduðu íslensk skip 4.200 tonnum af makríl, á árinu 2005 nam makrílaflinn aðeins 363 tonnum og árið 2004 var enginn makríll skráður í löndunarskýrslur Fiskistofu.
Makríllinn er verðmætasti uppsjávarfiskurinn ef hægt er að vinna hann til manneldis og fæst þá stundum ævintýralega hátt verð fyrir hráefnið. Sumarið er hins vegar ekki heppilegasti tíminn til þess og því hefur allur makríllinn farið í bræðslu að undanförnu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst