Nú er akkúrat vika liðin síðan ég lá upp í rúmi, á mánudagseftir-miðdegi, sofandi úr mér þynnkuna eftir hreint stórkostlega Þjóðhátíð. Þjóðhátíðin 2007 fer í bækurnar sem ein sú albesta; fer inn á topp 3 listann með hátíðunum 1998 og 2004, en ég geri ekki upp á milli þeirra. Það er bara ekkert út á þessa hátíð að setja.
Það rættist aldeilis úr veðrinu, þrátt fyrir að það hafi ekki skaplegt þarna á fimmtudagskvöldinu fram á föstudagskvöld. En ég lét það ekkert fara í taugarnar á mér. Ég lét veðrið fara í taugarnar á mér í fyrra og það skemmdi helling fyrir mér. En ég lét þetta sem vind um eyru þjóta í ár (pun intended). Umgjörðin hjá okkur félögunum í VKB var líka framúrskarandi í ár. Ljósmyndasýningin í tjaldinu heppnaðist fullkomlega og hékk uppi alla hátíðina (annað en í fyrra), vitinn skartaði sínu fegursta, búningarnir vöktu gríðarlega lukku sem og Þroskaheftið, sem var með besta móti í ár. Það verður erfitt að toppa þetta hefti á næsta ári en undirbúningur og hugmyndavinna fyrir Þroskahefti 2008 er þegar farin af stað.
Annars er bara allt það besta að frétta. Það fer að styttast í að ég flytji út til Amsterdam, ekki nema tvær og hálf vika í þetta… úfff, þetta er allt of fljótt að gerast maður! Það á reyndar ennþá eftir að redda húsnæði en það er einn úr hópnum að fara út í næstu viku til að leysa þau mál, svo vonandi reddast það í tæka tíð.
Um helgina komandi fer ég annars til Reykjavíkur til að vera viðstaddur Menninganótt fjórða árið í röð. Þetta er alltaf jafngaman finnst mér, enda er aldrei leiðinlegt þegar við peyjarnir komum saman og lyftum okkur upp.
Þarnæstu helgi verður svo eitthvað um kveðjupartý, bæði niðrá Café María (þar sem þrír okkar félaganna sem flytjum út erum að vinna) og svo ætlum við hinir félagarnir (VKB kjarninn) líka að halda smá farvel partý. Þannig að maður skiptir þessum kveðjupartýum bróðurlega á milli tveggja daga um þarnæstu helgi. Eintóm gleði.
En snúum okkur næst að lagi vikunnar. Eins og glöggir hafa tekið eftir þá hef ég lítið uppfært það síðustu vikur og verður framhald þessa liðs hér á síðunni með örlítið breyttu sniðið. Ég ætla ekki að keppast við það að uppfæra þetta í hverri viku, ég bara nenni því ekki. Heldur ætla ég að uppfæra þetta þegar ég nenni og þegar ég fæ virkilega góð lög á heilann sem ég vil deila með ykkur. Annað er bara svolítið þvingað finnst mér, að vera kreysta út eitthvað lag í hverri viku bara til að fylla upp í einhvern lið á síðunni. En nafnið “lag vikunnar” heldur sér samt sem áður, til að byrja með allavega.
Lagið sem ég ætla skella inn að þessu sinni er með John Mayer. Ég uppgötvaði John Mayer ekki fyrr en í apríl á þessu ári en samt minnir þetta lag mig óheyrilega mikið á síðasta sumar og atburði þess. Kannski svolítið “sentimental”, en þannig er það nú bara. Lagið er af plötunni Continuum frá árinu 2006 og ber nafnið The Heart of Life. Þetta lag kom sér vel þegar eftir-þjóðhátíðar-þunglyndið heltist yfir mann svona fyrstu dagana eftir hátíðina. Þó hefur andleg heilsa mín oft verið verri en eftir hátíðina í ár.
Að lokum er svo myndband hérna frá Þjóðhátíðinni, þegar við peyjarnir fundum innkaupakerru og tókum hana með okkur í Dalinn á sunnudagskvöldinu.
http://www.youtube.com/watch?v=ksmIcLSoHok
Fleiri myndbönd frá okkur félögunum af Þjóðhátíðinni er hægt að finna á YouTube svæði VKB.
www.andrihugo.com
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst