Skólastarf er að hefjast innan fárra daga. Miklar breytingar hafa verið í farvatninu og mikið og spennandi starf er framundan. Grunnskóla Vestmannaeyja hefur nú verið aldursskipt. Yngri nemendur eiga að mæta til skólasetningar 23. ágúst n.k. í Hamarsskóla sem verður aðsetur fyrir 1. – 5. bekk. Kennsla hefst hjá þeim föstudaginn 24. ágúst. Eldri nemendur koma til skólasetningar sama dag í Íþróttahúsinu þar sem þeir munu hitta kennara sína og fá nánari upplýsingar um það sem er framundan.
Í sumar hafa iðnaðarmenn í bæjarfélaginu unnið hörðum höndum við að breyta húsnæði Barnaskólans til að bæta aðgengi og aðbúnað allan, bæði fyrir nemendur og starfsfólk. Enn vantar svolítið uppá að þeim löngu tímabæru framkvæmdum ljúki en ætlunin er að hefja skólastarf í 6. – 10. bekk mánudaginn 27. ágúst. Því má búast við að bæði nemendur og starfsmenn skólans þurfi að sýna þolinmæði og umburðarlyndi meðan verið er að koma hlutunum á réttan stað og ljúka frágangi.
Að venju mun umferð bæði gangandi og akandi vegfarenda aukast verulega þegar skólastarf hefst og því eru forráðamenn beðnir að skoða gönguleiðir með börnum sínum og velja með þeim heppilegustu leiðirnar í skólann. Jafnframt eru forráðamenn sem aka börnum sínum í skólann hvattir til að skoða heppilegustu akstursleiðirnar. Mikilvægt er að skoða hvar hentar best að skila börnunum af sér til að þau séu sem öruggust í umferðinni og til að koma í veg fyrir umferðarteppu. Jafnframt eru foreldrar sem aka börnunum í skólann hvattir til þess að sameinast um aksturinn og skiptast á að aka börnunum þannig að það séu sem fæstir bílar á ferð við skólana.
Verið er að undirbúa akstursleið að Hamarskóla úr vestri (Goðahraunsmegin) þar sem verður gott rými fyrir bíla og örugg gönguleið fyrir börnin að skólanum. Einnig er vert að benda foreldrum barna sem fara í Hamarsskóla á, að það er örugg, upplýst og stutt gönguleið frá Íþróttahúsinu að Hamarsskóla þannig að foreldrar sem koma austan að geta ekið börnum sínum að Íþróttahúsinu og látið þau ganga þaðan.
Eins og við vitum öll er hreyfing talin afar mikilvægur þáttur í heilsurækt. Því viljum við eindregið hvetja foreldra til að stuðla að því að börn þeirra gangi sem oftast í og úr skóla.
Með samstarfskveðju,
f.h. fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyja
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst