Ég er ábyrgur fyrir liðinu
20. ágúst, 2007
Created by PhotoWatermark Professional
Created by PhotoWatermark Professional

Í ljósi árangri liðsins, síðasta tapleiks og umræðna eftir hann tel ég mig knúinn til að senda frá mér nokkrar línur. Blaðamaður Frétta tók viðtal við mig strax eftir síðasta leik þar sem ég gagnrýndi leikmenn og sagði þá skorta karakter.Ég vil hafa það alveg skýrt að ég er ekki að varpa ábyrgð frá mér yfir á leikmenn – að sjálfsögðu er ég ábyrgur fyrir liðinu sem fer á völlinn og gengi liðsins. Ég er ekki öðruvísi en aðrir enda eru þjálfarar alltaf reknir en ekki leikmenn ef illa gengur, og það vita allir sem taka þjálfarastarfið að sér. Þjálfari á að sjálfsögðu rétt á að gagnrýna leikmenn en það á ekki að fara fram í fjölmiðlum.

En aftur að Leiknisleiknum. Við lögðum þennan leik upp sem úrslitaleik sem hann og var. Það er í svona leikjum sem karakter kemur í ljós. Leikmaður með réttan karakter vex og skín þegar mest á reynir, heldur einbeitingu í því verki sem fyrir hann er lagt og fer ekki í felur. Alvöru karakter vinnur ekki aðeins sína vinnu heldur aðstoðar samherja sína í kringum sig og gerir þá betri. Þennan karakter vantaði í síðasta leik, sérstaklega í seinni hálfleik þegar virkilega þurfti á að halda. Þegar á reynir er oft sagt “ertu maður eða mús” . Mér fannst Leiknismenn spila vel í seinni hálfleik og þessi setning átti að vera hrós til þeirra og um leið gangnrýni á okkur. Hvernig þessi hugsun kom úr munni mér einni mínútu eftir tapleikinn gegn Leikni í viðtali við Júlla Inga var örugglega ekki þaulhugsuð. Ef ég hef sært einhvern biðst ég afsökunar.

Ég hef vanið mig á að tala aldrei við leikmenn strax eftir leiki, sérstaklega tapleiki og ætti sennilega að gera það sama við blaðamenn. Enda að eðlisfari tapsár mjög og líður yfirleitt illa að sjá ÍBV tapa hvort sem ég er að þjálfa liðið eða einhver annar.

Samningur minn við ÍBV er þannig að félagið þarf ekki að bera neinn kostnað vegna mín ef það vill ráða einhvern annan í staðinn til að stjórna liðinu. Ég sagði það þegar við sömdum og ég segi það enn að ef stjórnin hefur einhvern betri sem vill taka við liðinu og það gengur upp, þá verð ég ánægður fyrir hönd ÍBV því ég mun alltaf styðja félagið og vill því aðeins vel. Ég tók þetta verk að gera eins vel fyrir ÍBV og ég get. Ekki til að öðlast reynslu til að geta þjálfað hjá öðru liði seinna. Svo er það stjórnarinnar að meta hvort það sem ég get er nógu gott. Þangað til annað kemur í ljós mun ég halda áfram að reyna mitt besta, ég er ekki vanur að ganga frá hálfkláruðu verki.

Margir stuðningsmenn bjuggust við skrautsýningum á Hásteinsvelli, að liðið ætti eftir að fara létt með andstæðingana. Líkt og ÍBV sé æðra en önnur lið í þessari deild. Staðreyndin er sú að fyrsta deildin hefur verið jöfn síðustu ár og leikirnir í deildinni verið jafnir. ÍBV er í þessari deild af eigin verðleikum eingöngu, það var enginn sem dæmdi okkur niður eða tók af okkur stig. Liðið varð í neðsta sæti í Landsbankadeildinni í fyrra og á því skilið að vera í fyrstu deild í ár.

Þess vegna verðum við að sætta okkur við það að vera í fyrstu deild í ár, virða þá andstæðinga sem ÍBV leikur við í sumar og þá leikmenn sem eru að leggja sig fram fyrir hönd félagsins.

Alls 8 leikmenn sem voru meira og minna í liðinu á síðasta tímabili hurfu á braut og inn í hópinn voru teknir ungir strákar og tveir leikmenn úr KFS. Atli Heimisson kom svo eftir nokkra leiki á Íslandsmótinu og fyrir skemmstu komu Jeffsy og Nsumba.

Stefnan var sett á þrjú efstu sætin en byrjunin á mótinu var ekki góð og liðið hefur verið í 4-5 sæti nánast frá upphafi. Deildin er tvískipt og liðin fyrir ofan okkur hafa verið mjög stöðug í sínum leik. Aftur á móti hefur leikur okkar verið mjög sveiflukenndur. Sérstaklega hefur liðið leikið illa á heimavelli sem er mér ráðgáta líkt og stuðningsmönnum. Ég held að aðalskýringin á sveiflukenndum leikjum sé sú að í liðinu eru margir strákar að stíga sín fyrstu skref með meistaraflokki, aðrir hafa verið varaskeifur og ekki þurft að axla mikla ábyrgð á gengi liðsins. Leikmenn eins og Stefán Björn, Arnór, Anton, Ingi Rafn, Þórarinn og fleiri eru að spila sína fyrstu leiki í byrjunarliði meistaraflokks ÍBV.

Það sem hefur þó verið mest svekkjandi er að þeir leikmenn sem áttu að bera uppi liðið hafa verið meira og minna frá vegna meiðsla. Jonah og Andri hafa nánast ekkert leikið með liðinu í sumar og Matt Garner missti af fyrri helmingi mótsins og það munar um minna því hópurinn er ekki fjölmennur.

Það myndi engum detta í hug að verða brjálaður á jólunum ef jólasteikin væri ekki fullkomin. Það er of seint að fara út í búð og kaupa nýja og elda hana. Það sama má segja með liðið okkar. Þeir sem spila fyrir okkar hönd í ár eru þeir leikmenn sem við höfum alið upp hjá félaginu eða fengið til Vestmannaeyja í þeim tilgangi að styrkja leikmannahópinn. Aldrei hafa fleiri uppaldir Eyjastrákar leikið með liðinu eins og í ár þó það skipti engu máli í mínum huga hvaðan leikmenn eru svo fremi sem þeir eru að spila vel. Leikmennirnir gera sitt besta og við skulum styðja þá. Þessir leikmenn eru tilbúnir að berjast áfram fyrir ÍBV ekki bara í ár heldur næstu ár. Einhvern tíman verða þeir að taka sín fyrstu skref og nú eru þau tekin.

Ég eins og allir leikmenn gerum okkur grein fyrir því að árangur liðsins er ekki samkvæmt væntingum. Íslandsmótið er ekki búið. Það er enn möguleiki og engin að gefast upp. Hins vegar virðast Grindavík og Þróttur vera örugg með úrvalsdeildarsæti á næstu leiktíð og möguleikar okkar felast í að vinna alla sex leikina okkar og treysta á að Fjölnir tapi þremur leikjum og að Fjarðabyggð missi stig í einum. Við verðum að einbeita okkur að okkar leikjum og láta ekki gott gengi annarra trufla okkar verk.

Með von um betri tíð og áframhaldandi stuðning:
Heimir Hallgrímsson

Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst