Umdeilt að færa forræði Vestmannaeyinga í orkumálum til Hitaveitu Suðurnesja
20. ágúst, 2007

Eyjar.net heldur áfram að heyra í valinkunnum Eyjamönnum varðandi hvaða möguleika þeir sjá í stöðunni með söluhagnaðinn af Hitaveitu Suðurnesja.

Að þessu sinni heyrðum við í Ragnari Óskarssyni fyrrverandi bæjarfulltrúa og fengum að heyra hvað hann leggur til.

 

Spurningin er sú sama og áður:
Ef þú værir bæjarstjórnin hvað myndirðu leggja til að gert yrði við þessa 3.6 milljarða ? 

Áður en ég svara spurningunni beint vil ég minna á að þegar forræði Vestmannaeyinga  á orkumálum var fært til Hitaveitu Suðurnesja var um afar umdeilda ákvörðun að ræða. Þetta átti ekki síst við um neysluvatnið en í því er m.a. talinn fólginn mestur framtíðarauður mannkyns.  
Nú hefur hlutur Vestmannaeyja verið seldur fyrir 3,6 milljarða króna og þá er eðlilegt að spurt sé hvernig eigi að ráðstafa þeim miklu fjármunum með sem skynsamlegustum hætti. Einnig verður að spyrja þess hvernig ekki eigi að verja þessum fjármunum og í raun er sú spurning jafn mikilvæg og jafnvel mikilvægari en sú fyrri. 

Ég tel grundvallaratriði fyrir bæjaryfirvöld að greiða niður stærstan hluta lána bæjarfélagsins sem aukist hafa óhóflega á liðnum árum. Niðurgreiðsla lána er reyndar ein meginforsenda þess að unnt sé að standa undir rekstri og eðlilegri þjónustu í framtíðinni og hún gæti, ef rétt er á haldið, orðið stór liður í því að koma jafnvægi á fjárhag bæjarfélagsins og létta á til framtíðar. Það skiptir því afar miklu máli að vel sá á haldið og ég vona svo sannarlega að bæjarstjórn beri gæfu til þess að hegða sér skynsamlega að þessu leyti.

Ég tel á hinn bóginn að fara verði afar varlega í að nota fjármunina til málaflokka sem sannarlega eru og eiga að vera á hendi ríkisins. Það er t.d. mjög freistandi að leggja til fjármagn til grunnþátta samgöngumála, ekki síst nú um þessar mundir þegar ríkisvaldið reynist okkur Vestmannaeyingum andsnúið. Ef við hins vegar leggjum þar fram fé er ákveðin hætta á að ríkisvaldið telji sig fá staðfestingu á að það sé ekki skuldbundið í þessum mikilvæga málaflokki. Og þannig mætti áfram telja t.d. að því er heilbrigðismál varðar o.s. frv. Sannleikurinn er auðvitað sá að ríkið hefur í langan tíma hlunnfarið sveitarfélögin í landinu og svikið þau um réttláta hlutdeild í skatttekjum. Afleiðingin hefur verið sú að sveitarfélögin hafa safnað miklum skuldum og þar eru Vestmannaeyjar engin undantekning.

Það má ekki skilja orð mín þannig að ég sé á móti því að hluti fjárins sé notaður til „sýnilegri “eða „áþreifanlegri” verkefna ef svo má að orði komast. Þar er af nógu að taka. Mér fyndist t.d. skynsamlegt að fram færi rökræn og opinská umræða meðal bæjarbúa um brýn framfaramál og hvar rétt væri að leggja fram fé bæjarbúum til hags. Allt slíkt þarf að vanda og alls ekki taka ákvarðanir um í fljótfærni eins og oft hefur brugðið við.

  Ragnar Óskarsson
 

Skoða blaðið á netinu
Forsida 12 Tbl 2024
12. tbl. 2024
Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst