Uppbyggilegt samstarf
Eitt af veigamestu hlutverkum þingmanna er uppbyggilegt samstarf við sveitarstjórnarmenn. Á sama hátt ber sveitarstjórnarmönnum að falst eftir stuðningi þingmanna við hagsmunamál sveitarfélaganna. Í starfi mínu sem bæjarstjóri í Vestmannaeyjum hef ég lagt áherslu á samstarf við þingmenn og ítrekað bæði svarað símtölum og tölvupósti frá þeim. Á sama hátt hef ég ítrekað sent þeim bréf og átt frumkvæðið að hverskonar samstarfi. Í þessum samskiptum læt ég mér í léttu rúmi liggja fyrir hvaða flokk þingmenn starfa enda sama hvaðan gott kemur.
Grétar hefur aldrei sinnt samstarfi við Vestmannaeyjabæ Einn þeirra fáu þingmanna sem aldrei hafa svarað skeytum mínum né átt frumkvæðið að orðaskiptum er Grétar Mar þingmaður Frjálslynda flokksins. Hann hefur valið þann kostinn að böðlast áfram og senda bæjarstjórn Vestmannaeyja og starfsmönnum sveitarfélagsins tóninn í fjölmiðlum.
Þingmaðurinn virðist ekki skilja hvað er ríkis og hvað sé bæjar
Eitthvað virðist hinn nýbakaði (og vaflaust efnilegi) þingmaður einnig misskilja hlutverk sitt þegar hann ætlast til að ég sem bæjarstjóri Vestmannaeyja beri ríkisstofnunum skilaboð hans og dómsdagsspár. Hann kvartar undan því að í skrifum mínum um athugasemdir sé vísað í gögn sem hann hefur ekki kynnt sér og telur það lýsa hroka að “taka ekki ábendingum og koma þeim áleiðis heldur gera lítið úr þeim”. Það er fullkomalega rétt að ég gef minna en ekkert fyrir margt af því sem Grétar Mar hefur lagt til þessara mála enda hefur Siglingastofnun Íslands þegar hrakið nánast allar dómsdagsspár Grétars Mar. Ef til vill gerir hann sér ekki grein fyrir því að Siglingastofnun Íslands heyrir undir samgönguráðuneytið og honum ætti að vera í lófa lagið að leyfa þeim að njóta sérþekkingar hans á hafnargerð. Nú hlýt ég að velta því fyrir mér hvort Grétar Mar hafi haft jafn mikið samband við Siglingastofnun og kjörna fulltrúa í Vestmannaeyjum vegna þessa máls, sem sagt ekkert. Ef svo þá er hér um algert lýðskrum að ræða.
300 metra lengingSérfræðingurinn Grétar Mar velur í nýjustu skrifum sínum að fjalla um sjálfumgleði og skort á minnimáttarkennd bæjarstjórans. Þar hefur hann reyndar algerlega rétt fyrir sér. Minnimáttarkennd hefur ekki einkennt framkomu fulltrúa Vestmannaeyjabæjar og á ekki að gera það. Þegar ég kem fram sem bæjarstjóri er ég að koma fram sem fulltrúi Vestmannaeyjabæjar og Eyjamanna allra. Vestmannaeyingar hafa ekki ástæðu til að biðjast afsökunar á tilveru sinni og því mun ég hér eftir sem hingað til nálgast starfið með það í huga. Hinsvegar gerir Grétar Mar ekki nokkra tilraun til að rengja þá fullyrðingu að hafnaraðstaða í Bakkafjöru myndi versna til mikilla muna ef garðarnir yrðu settir 300 metrum utar. Í þessari fullyrðingu kemur enda berlega í ljós að þessi kjörni fulltrúi þekkir ekki til vandaðra úttekta á aðstöðu í Bakkafjöru. Þá fjallar hann ekkert um mun á kenniöldu og bortöldu né nokkuð annað sem máli skiptir. Það er þó huggun harmi gegn að hann fer með rétt mál þegar hann kemur inn á skort minn á minnimáttarkennd, og er ég þó sálfræðingurinn og hann sjómaðurinn.
Málefnaleg umræða
Enn af kvarti þingmannsins. Í nýjustu skrifum Grétars segir hann að uppbygging hafnar í Bakkafjöru sé “ekki hafin yfir gagnrýni og málefnalega umræðu”. Það er einmitt mergurinn málsins og hvet ég þingmanninn til að kynna sér málið og nálgast það út frá málefnalegri umræðu en ekki draugasögum og dómsdagsspám. Fjölmargir sjómenn hér í Vestmannaeyjum hafa lagt sig fram við að skoða gögn í þessu máli og bæta við þau út frá sinni sérþekkingu sem sannarlega er mikil. Af því hefur Siglingastofnun sannarlega haft mikið gagn. Í því ljósi býð ég Grétari Mar fullt aðgengi að öllum gögnum sem tengjast þessari miklu samgöngubót og eru í vörslu Vestmannaeyjabæjar.
Ég hef meiri trú á Vestmannaeyjum en Grétar Mar
Eitthvað virðist Grétar Mar enn og aftur lesa okkur Eyjamenn rangt þegar hann gerir tilraun til að koma nýjum draugasögum af stað þegar hann segir “Ef litið er til framtíðar sýnist mér að höfn í Bakkafjöru muni geta minnkað umsvif úti í Eyjum frá því sem nú er. Löndun á fiski gæti færst í Bakkafjöru og ýmis þjónusta, sem nú fer fram í Eyjum, gæti færst upp á land.” Ef til vill er það vegna sjálfumgleði minnar eða einlægrar trúar minnar á styrk og framtíð Vestmannaeyja að mér finnst þessi nýja draugasaga Grétars nánast brosleg. Ótti minn er ekki sá að á Landeyjasandi miðjum spretti upp sjávarþorp sem keppi við öflugasta útgerðarbæ á Íslandi. Sérstaklega verður þetta kómískt þegar horft er til þess að Grétar Mar hefur gengið hvað lengst í því að telja landsmönnum trú að sjávarbyggðir eigi sér ekki viðreisnar von. Enda jafnvel þótt ótti þessi væri raunhæfur þá kemur þingmaðurinn þarna enn og aftur upp um vanþekkingu sýna því höfnin í Bakkafjöru verður í meirihlutaeigu okkar Eyjamanna og þróun hennar því á okkar ábyrgð. Þetta hefði maður haldið að þingmenn vissu. Svo er það eilítið undarlegt að sá sem í einu orðinu segir að höfnin sé algerlega vonlaus og geti ekki einu sinni þjónað sérhönnuðu öflugu skipi, geti keppt við bestu höfn á landinu þegar kemur að fiskibátum.
Ég hef áður bent á að Vestmannaeyjar þurfa á byltingu að halda í samgöngum. Sigling á nýju skipi í Þorlákshöfn er hænufet sem hvorki breytir verulega atvinnulífi né búsetuskilyrðum Vestmannaeyinga. Á seinasta ári fækkaði búsettum Eyjamönnum um eitthundrað og því miður eru líkur fyrir því að enn og aftur komum við til með að sjá fækkun íbúa. Öllum sem sjá vilja má ljóst vera að þetta breytist ekki nema veruleg byggðarþróun verði og hún verður einungis með byltingu í samgöngum.
Með vinsemd
Elliði Vignisson
bæjarstjóri í Vestmannaeyjum