Holland á döfinni
31. ágúst, 2007

Þá er bara alveg að koma að þessu, tveir tímar þar til ég fer í Herjólf og svo er flogið út til Eindhoven kl. 7 í fyrramálið. Þetta er frekar skrýtin upplifun; ég er búinn að vera ætla að gera þetta í fimm ár, með öllum þeim áhyggjum og efasemdum sem svo langur tími hefur í för með sér, en núna er stundin bara allt í einu að renna upp. Ég held ég átti mig ekki fullkomlega á þessu fyrr en ég er kominn út og kominn í einhverja smá rútínu.

Síðustu dagar hafa líka verið undarlegir hjá mér. Ég er búinn að ganga í gegnum mikinn tilfinninga skala, frá því að vera áhyggjufullur og kvíðinn og upp í að vera fullur tilhlökkunar og bjartsýnn. En er það ekki bara gangur málsins í þessu? Það sem olli mestum kvíða hjá mér voru húsnæðismál en það er víst búið að redda því til bráðabirgða. Fáum að leigja hús sem er til sölu og er mjög nálægt skólanum, en ef það selst allt í einu þá verðum við líka að vera fljótir að koma okkur út. Svo við verðum að leita að einhverju varanlegra á meðan við erum í þessu húsi.

Ég er svo alltaf samur við mig þegar ég þarf að fara pakka niður. Bíð alltaf með þetta fram á allra síðustu stundu og er fyrir vikið alltaf með það aftan í hausnum að ég sé að gleyma einhverju mikilvægu. En ég held að pökkunin hafi samt gengið alveg bærilega í nótt, var að til að verða hálf fimm að pakka.

Ég frétti það líka í gær að við fáum tvær vikur í jólafrí og tvær vikur í sumarfrí. Það er ekki meira en það, 4 vikur í frí á ári, enda hlýtur prógramið að vera stíft þegar maður er að taka BA gráðu á tveimur árum. En það vill svo skemmtilega til að sumarfríið hittir akkúrat á síðustu vikuna í júlí og fyrstu vikuna í ágúst, svo maður nær allavega næstu Þjóðhátíð. Sem er gríðarlega gott!

Jæja, nóg af þessu í bili. Ætla fara drulla mér að leggja lokahönd á pökkunina og skunda um húsið í leit að einhverju sem ég gæti mögulega verið að gleyma. Ég læt svo heyra í mér frá Amsterdam um leið og ég get.

Annars sjáumst við bara um jólin. Bless á meðan!

www.andrihugo.com

 

Skoða blaðið á netinu
Forsida 12 Tbl 2024
12. tbl. 2024
Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst