Lundaveiðitímabilið í sumar (seinni hluti)
6. september, 2007

Það er ánægjulegt að koma niður að höfn þessa dagana, enda mikið af lundapysju í höfninni. Þetta eru skýr skilaboð, um að ég hafi haft rétt fyrir mér um að lundavarpið yrði í ágætu meðallagi í sumar.

Í gær lenti ég á spjalli við vin minn, Ingvar Sigurðsson, forstöðumann Náttúrufræðistofu Suðurlands, og var hann frekar óhress með mín skrif, sérstaklega þar sem ég segi frá því, þegar mér var sagt á skrifstofu þeirra í setrinu frá því að hugsanlega væri ein skýringin á þessu gríðarmikla magni af lunda við Vestmannaeyjar í sumar sú, að þetta væru hugsanlega flækingslundar frá öðrum stöðum. Ég stend hinsvegar við þetta og leyfi mér að fullyrða með nokkurri vissu, að fuglafræðingurinn Jan, hafi sagt þetta. Á samtali mínu við Ingvar, lýsti hann því yfir, að sumarið í sumar væri þriðja árið í röð, þar sem við værum að horfa upp á algjört hrun í varpi lundans og sagðist hann reikna með, að miðað við eðlilegt ár, yrði nýliðun í lundastofninum í mesta lagi 5-10%. Þessu er ég ekki sammála, og miðað við það sem ég hef séð, sýnist mér óhætt að reikna með því að nýliðun verði á milli 20-30%. Ef miðað er við síðasta ár, þá er þetta mjög gott ár. Vonandi verður það betra á næsta ári. Varðandi þá skoðun Ingvars, vinar míns, að þetta sé þriðja árið í röð, þar sem nánast engin nýliðun er, þá skal það tekið fram, að nýliðun í lok sumars 2005 var í ágætu meðallagi.

Að lokum læt ég hér fylgja með litla sögu úr lundaferð frá síðasta ári. Það var seinni partinn í júlí á síðasta ári, sem ég lagði leið mína út í Miðklett. Vindur var að austan, ágætis kaldi. Lagði ég leið mína upp í efsta sætið, eins og ég kalla það, í Miðkletti. Veiði var ágæt og eftir að ég hafði verið þarna við veiði í c.a. tvo tíma eða svo, heyrði ég skyndilega mjög undarleg köll. Mér heyrðist einhver kalla hó, hó, hó og svo aftur hó, hó, hó. Upp í mér kom gömul tilfinning um gamlar minningar úr jólasveina myndum. En eftir að mér var litið upp í hæsta klettinn í Ystakletti, tók ég eftir manni þar (sem var reyndar ekki í jólasveinabúning) en var í mjög fallegri grænni peysu svo sást langar leiðir. Ég hafði tekið eftir því áður, að maður var að veiða fyrir ofan þessa brekku í Ystakletti, en þarna hafði þessi maður tekið upp á því, að hlaupa um, í byggðinni fyrir framan veiðistaðinn hjá sér, og kallaði stöðugt hó, hó, hó. Siðar hljóp hann upp í veiðistaðinn aftur og hélt áfram að veiða. Nokkru seinna heyrði ég þessi köll aftur. þá hafði þessi sami maður hlaupið töluvert upp fyrir veiðistaðinn, og ég heyrði aftur hó, hó, hó og var hann þá að smala kyndum og reka niður í byggðina fyrir framan veiðistaðinn hjá sér. Ég hugsaði nú með mér:”Skyldi hann Grímur vita af þessu?” Nokkru seinna sé ég, að veiðimaðurinn týnir saman veiðina, setur hana í hvítan poka og röltir sem leið liggur niður að kofa. Ég hugsaði með mér:”þarna fer jólasveinninn og ætlar að þakka Grími fyrir að fá að veiða sér í soðið” Svo niðurstaða mín er þessi, ef einhver var í vafa, þá er það hér með staðfest, að jú, jólasveinninn, hann býr í Ystakletti.

Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst