Staðráðinn í að flytja aftur til eyja
10. september, 2007

eyjar.net mun á næstu vikum og mánuðum heyra í brottfluttum eyjamönnum bæði innanlands sem og erlendis með þeim tilgangi að fá að vita hvar þau eru stödd í lífinu og hvaða viðhorft þau hafa til Vestmannaeyja.

Fyrst á dagskrá eru Jón Helgi Gíslason og Guðrún María Þorsteinsdóttir

Nöfn ?
Jón Helgi Gíslason (1980)
Guðrún María Þorsteinsdóttir (1983)

Fjölskylduhagir ?
Barnlaus í sambúð. En eigum reyndar einn kött, Monzu sem er tveggja ára.

Atvinna & Menntun ?
Guðrún María er nemi á öðru ári í Hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands
Jón Helgi er nemi á fyrsta ári í Almennri trúabragðafræði við Háskóla Íslands.

Búseta ?
Við erum nýflutt á South Avenue við Keflavíkurflugvöll þar sem aðstaða er öll hin besta fyrir námsfólk.

Eigiði Mottó ?
Guðrún María -> Að koma fram við aðra eins og ég vil að aðrir komi fram við mig.
Jón Helgi -> Læt ekki álit annarra skipta mig máli.
Sameiginlegt fyrir okkur -> Að fara ekki ósátt að sofa.

Fariði oft til Eyja ?
Við reynum að fara við öll möguleg tilefni…það er að segja ef eitthvað er að gerast. Síðasta sumar fórum við á sjómannadagshelgina, árgangsmót Guðrúnar Maríu, goslokahátíð og auðvitað þjóðhátíð. Ef að samgöngur við eyjar væru betri færum við líklega oftar.

Hvaða tengingu hafið þið við Eyjarnar í dag ?
Amma Guðrúnar býr í eyjum og það er svona okkar helsta vígi meðan við erum þar, afi Jóns Helga býr líka í eyjum. Svo náttúrulega eigum við fleira skyldfólk og marga vini heima í eyjum.

Fylgist þið með því sem er að gerast í Eyjum ?
Við fylgjumst stöðugt með því sem er að gerast í eyjum og höfum sterkar skoðanir á mörgu því sem er í gangi þar. Þar á meðal, og kannski sérstaklega, samgöngumálunum. Þrátt fyrir að hvorugt okkar sé íhald erum við ánægð með kraft bæjarstjórnar og vonum að hún haldi sínu góða starfi áfram. Við ætlum að nota tækifærið og pressa á að hugað verði að aðstöðu til knattspyrnuiðkunar yfir veturinn.

Hvernig finnst ykkur staða Vestmannaeyja í dag ?
Okkur finnst staða eyjanna vera ágæt og virðist vera á uppleið frekar en hitt. Við neitum því ekki að við vildum sjá hana vera betri enda erum við mikið eyjafólk. Samgöngumál eru náttúrulega ekki eins og við vildum hafa þau og vonum við innilega að eitthvað fari að gerast í þeim málum fljótlega. Við erum fylgjendur gangna og teljum að þau myndu bæta stöðu eyjanna til muna.

Hvernig sjáið þið næstu 10 ár í þróun eyjanna ?
Það er voðalega erfitt að sjá þróunina en við teljum að með bættum samgöngum verði þróunin einungis jákvæð. Með bættum samgöngum fara hagsmunir eyjanna aðeins uppá við.

Sjáiði fyrir á næstu árum að flytja aftur til Eyja ?
Við erum staðráðin í að flytja aftur til eyja enda finnst okkur höfuðborgarsvæðið alls ekki heillandi. Bæði erum við uppalin í eyjum og vitum hvaða kosti það hefur að alast upp þar. En alla vega verðum við að mennta okkur áður en við komum heim þannig að enn er einhver tími í að af því verði. Auðvitað hefur það sitt að segja að við fáum vinnu við okkar hæfi og í samræmi við menntun þegar þar að kemur en við erum bara jákvæð og bjartsýn í sambandi við það ennþá.

Gætuð þið hugsað ykkur að reka fyrirtæki í Vestmannaeyjum ?
Hvorugt okkar hefur hugsað út í það þannig séð, enda lítill áhugi fyrir fyrirtækjarekstri af okkar hálfu bara svona almennt, hvort sem um er að ræða í eyjum eða annarsstaðar. Hvorugt okkar er í námi sem gæti miðað að sjálfstæðum fyrirtækjarekstri. En þegar við hugsum útí það þá er kannski mjög áhættusamt að mörgu leiti að vera með fyrirtækjarekstur í eyjum. Það þyrfti að vera verulega útpælt, til dæmis með tilliti til samgangna, og byggt á nokkuð öruggum grundvelli. Ekki þar fyrir að það sé ekki almennt þegar hugað er að fyrirtækjarekstri en það er samt munur á að opna fyrirtæki á litlum stað eins og í eyjum eða í borginni.

Ef að Eyjamenn þyrftu að fjármagna göngin að hluta til, myndu þið kaupa hlutafé í göngunum ?
Ég held að hver einasti eyjamaður væri til í að kaupa hlutafé í göngunum, ef þau yrðu að veruleika, annars væri ég mjög hissa. Við alla vega værum meira en lítið til í að kaupa í þeim.

Eitthvað að lokum ?
Þökkum kærlega fyrir okkur og biðjum kærlega að heilsa til eyja.


eyjar.net þakkar Jóni Helga og Guðrúnu Maríu kærlega fyrir að taka sér tíma og svara spurningum okkar.

Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst