Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, segir, að samtals verði varið 10,5 milljörðum króna til mótvægisaðgerða á næstu tveimur fiskveiðiárum vegna niðurskurðar þorskkvóta. Ekki eru í þessari tölu framlög til vísindaverkefna. 6,5 milljarðar eru nýtt fjármagn en rúmir 4 miljarðar eru flýting á framkvæmdum.
Árni sagði að það væri mat ríkisstjórnarinnar, eftir að hafa ráðfært sig við Byggðastofnun og atvinnuþróunarstofnanir, að sé sé líklegt að komi til fjöldaatvinnuleysis í sjávarútvegi á næstu mánuðum. Fyrirtæki muni í lengstu lög forðast uppsagnir og halda að sér höndum fram yfir áramót. Sagði Árni að fyrirtæki muni líklega halda skipum lengur í höfn að vori og taka lengri sumarstopp. Því sé áhersla lögð á sveitarfélög, þar sem yfir 10% af vinnuafli eru í sjávarútvegi og þar sem hagvaxtar hefur ekki notið.
Árni sagði, að það flækti málið, að sums staðar þar sem áhrif af aflaheimildarskerðingunni eru mikil, komi aðrir hlutir á móti.
Árni sagði, að um væri bæði beinar aðgerðir, sem koma til framkvæmda strax og aðgerðir sem koma til framkvæmda á lengri tíma. Árni nefndi m.a. að skuldum yrði létt af Byggðastofnun, vegaframkvæmdum verði flýtt sem og framkvæmdum við Akureyrarflugvöll. Þá verður raforkukerfið styrkt, veiðigjald fellt niður og framlög til vísindarannsókna aukin.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst