Fyrstu skrefin í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnar eru tekin af myndug skap. Ég tel að ríkisstjórn hafi með þeim markað ákveðna stefnu og á von á því að innan skamms verði næstu skref stigin. Hvað varðar sértækar aðgerðir til styrktar Vestmannaeyjum þá bera þar hæst 20 milljóna styrkur til rannsókna- og fræðasetursins, framlag til eflingar framhaldsskólans og tvö störf hjá Nýsköpunarstofu Íslands. Þá koma áframhaldandi samningar við Flugfélag Íslands til með að styrkja ferðþjónustu hér í Eyjum og þá ekki síst það að bæta 3. ferðinni við yfir sumartímann. Hinsvegar er öllum ljóst að fleiri sértækar aðgerðir verða að koma til ef á einhvern hátt á að bæta þau skörð er sett voru í skjöld okkar Eyjamanna með því að skerða hér efnahag um 3.6 milljarða á ári. Um leið og ég hrósa stjórnvöldum fyrir fyrstu skrefin þá myndi ég vilja að ríkisstjórn Íslands taki fastar á vanda sjávarútvegsins td. með því að fella veiðigjald alveg niður auk þess sem enn hefur ekkert verið minnst á breytingar á þeim misrétti sem felst í byggðarkvóta. Þá þarf að stórefla þorskrannsóknir og tilboð Vestmannaeyjabæjar og atvinnulífsins hér um að leiða það starf og greiða að hluta stendur enn. Ég trúi ekki öðru en að stjórnvöld þiggi þá útréttu hönd. Ég hef í aðdraganda þessara ákvarðana verið í góðu samstarfi við Árna Matthisen og Össur Skaprhéðinsson auk flestra þingmanna sunnlendinga. Slíkt samstarf er forsenda árangurs og við leggjum mikið upp úr áframhaldandi samstarfi og viljum áfram leiða starf varðandi þær mótvægisaðgerðir er snúa að Vestmannaeyjum. Það sem nú hefur verið tilkynnt er sem sagt gott skref í rétta átt en skjöldurinn er enn skörðóttur og því ætlum við að breyta.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst