Þetta er allt saman hrokkið í réttan gír þannig að menn fara að settum lögum og reglum,” segir Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri í Bláskógabyggð, um það er skipulagsfulltrúi uppsveita Árnessýslu kom í gær í veg fyrir steypuvinnu við þyrlupall hjá frístundahúsi milljarðamæringsins Magnúsar Kristinssonar.Magnús, sem er útgerðarmaður og eigandi Toyota-umboðsins með meiru, á sem kunnugt er þyrlu sem hann notar gjarnan til ferða sinna milli landshluta. Sérstaklega er þekkt að Magnús fer með þyrlu sinni milli lands og Vestmannaeyja og segist hafa fest kaup á vélinni vegna óáreiðanlegra flugsamgangna þar á milli.
Magnús á húsið Sólbrekku í Reykholti. Eigninni tilheyrir um tveggja hektara lóð og tíu hektarar af ræktunarlandi. Magnús mun hafa fengið leyfi Flugmálastjórnar til að lenda þyrlunni við Sólbrekku og hefur iðulega gert það og flykkjast þá Reykhyltingar gjarnan út í glugga til að sjá „ferlíkinu” bregða fyrir eins og ein nágrannakonan orðar það. Í gærmorgun voru mættir þangað steypubílar til að steypa upp stóran og upphitaðan þyrlupall. Magnúsi hafði hins vegar láðst að sækja um leyfi til sveitarstjórnarinnar fyrir byggingu pallsins. Sólbrekka er innan skilgreinds þéttbýlis í Reykholti.
„Ég er staddur erlendis og veit bara ekkert um þetta mál,” segir Magnús aðspurður um framkvæmdirnar við pallinn.
Valtýr sveitarstjóri segir steypt plön á borð við þyrlupall háð ákvæðum skipulags- og byggingarmála.
„Menn voru kannski ekki alveg klárir á því hvar þeir stóðu en það er búið að gera mönnum ljóst að öll mannvirki eru leyfisskyld,” segir sveitarstjórinn sem segir skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu hafa strax í gær rætt við Magnús sem hygðist ætla í réttan farveg með pallinn.
Valtýr segist sjálfur ekki geta svarað því hvort leyfi verði veitt fyrir þyrlupallinum.
„Þetta er leyfisskyld framkvæmd. Ef þyrlupallur er innan þéttbýlis þarf hann að fara í deiliskipulag. Þetta er hlutur sem verður einfaldlega að fá málefnalega umfjöllun á réttum stöðum,” segir sveitarstjórinn.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst