www.eyjar.net heldur áfram að heyra í brottfluttum eyjamönnum bæði innanlands sem og erlendis með þeim tilgangi að fá að vita hvar þau eru stödd í lífinu og hvaða viðhorft þau hafa til Vestmannaeyja.
Að þessu sinni heyrðum við í Jóhanni Erni Friðsteinssyni en Jóhann Örn er búsettur í Þrándheimi í Noregi. Jóhann Örn stundar þar nám í jarðverkfræði með áherslu á jarðgangnagerð.
Nafn:
Jóhann Örn Friðsteinsson (1978)
Fjölskylduhagir
Er í sambúð með Kristjönu Hildi Kristjánsdóttur, ættaðri úr Aðaldal og á tvær dætur, Freyju Maríu fædda 2004 og Ásdísi Ernu nokkra mánaða.
Atvinna og menntun:
Útskrifaðist með B.s. gráðu í jarðfræði frá Háskóla Íslands 2001. Vann síðan hjá Almennu verkfræðistofunni í 5 ár og stunda nú nám í Jarðverkfræði með áherslu á jarðgangnagerð við Norges Tekniske-Naturvitenskaplige Universitet (NTNU) í Þrándheimi.
Búseta:
Bý í Þrándheimi í Noregi
Mottó:
Þetta reddast er mitt mottó og síðan skila ég sjaldan af mér verkefni án þess að vera alveg fullkomlega sáttur við það.
Ferðu oft til Eyja ?
Ég get því miður ekki sagt það. Fór orðið allt of sjaldan áður en ég flutti til Noregs, kannski 2-3 sinnum á ári.
Telurðu það hafa mótað þig sem einstakling að hafa alist upp í eyjum?
Já að miklu leyti, held að ég hefði nú ekki haft svona mikinn áhuga á náttúrufræðum ef ég hefði alist upp á mölinni.
Tenging við eyjarnar í dag:
Foreldrar mínir, amma og afi ásamt frændum og frænkum búa í Eyjum, svo eru það náttúrulega hin tilfinningalegu tengsl. Fæ stundum nokkurskonar fortíðarþrá þegar ég hugsa til barnæskunnar.
Fylgistu með því sem er að gerast í eyjum ?
Að sjálfsögðu geri ég það. Les vefmiðlana á hverjum degi. Síðan spjalla ég annars lagið við Jóhann Svein og þar fæ ég það sem vantar uppá.
Hvernig finnst þér staða Vestmannaeyja í dag?
Samgöngumálin eru gjörsamlega í lamasessi, allt er einhvern vegin svo staðnað og ekkert gerist fyrr en þessu verður kippt í liðinn. Það eru allir að bíða. Annars finnst mér fólk almennt vera bjartsýnna en áður.
Hvar finnst þér sóknarfærin liggja fyrir Vestmannaeyjar ?
Vísindin efla alla dáð. Sóknarfærin liggja meðal annars í því að bæta og efla Rannsóknarsetrið í Vestmannaeyjum. Það eru fáir staðir á landinu betur til þess fallnir til að stunda rannsóknir á lífríki sjávar. Efla mætti einnig framhaldsskólann og athuga grundvöll fyrir heimavist, hefur eflaust eitthvað verið spáð í það. Svo er það náttúrulega ferðaþjónustan og allur sá pakki, gera út á náttúruna og nýja hraunið. Er ánægður með Pompei norðursins verkefnið.
Hvernig sérðu næstu 10 ár í þróun eyjanna?
Stórbættar samgöngur, ÍBV fær 3 stig úr öllum viðureignum við KR, frá og með 2009. Sameining grunnskólanna (held að það verði hitamál J, eða er það búið). Veit ekki hvernig skerðing þorskkvótans mun hafa áhrif á atvinnulíf en þetta reddast allt saman.
Sérðu fyrir þér á næstu árum að flytja til eyja?
Ég býst ekki við því nei. Ég ætla mér að vinna við eitthvað tengt jarðgangnagerð en svo er víst ekki á dagskrá á stór Vestmannaeyjasvæðinu.
Gætirðu hugsað þér að stofna og reka fyrirtæki í vestmanneyjum?
Nei, ég hef svo afskaplega lítið vit á markaðsfræði, viðskiptafræði og hvað sem þetta nú heitir að ég færi væntanlega strax á hausinn eða þá tekinn í gegn af skattinum.
Ef að Eyjamenn þyrftu að fjármagna göngin að hluta til, myndirðu kaupa hlutafé í göngunum ?
Það fer eftir því hvað kæmi í ljós í rannsóknum, hverjir myndu hanna göngin og hafa eftirlit með framkvæmdum.
Eitthvað að lokum ?
Ég ætla að nota tækifærið og senda kveðju til ömmu Toddu og afa Fúsa og svo náttúrulega… Áfram Týr.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst