Síðastliðin þriðjudag var haldinn fundi hjá stofnfjárhöfum í Sparisjóði Vestmannaeyja. Á þessum fundi m.a. samþykktar tillögur stjórnar um aukningu á stofnfé Sparisjóðsins og breytingu á eignar prósentu hvers stofnfjárhafa. Eftir þessa breytingu er úr sögunni jöfn eignarprósenta stofnfjárhafa í sparisjóðnum en áður áttu allir 70 stofnfjárhafarnir 1.4% stofnfjár.
www.eyjar.net sendi spurningar á Þór Vilhjálmsson formann stjórnar Sparisjóðsins og birtum við svör hans hér að neðan:
Á fundi stofnfjáreigenda var ákveðið að auka stofnfé um 1.000 milljónir kr og af því eru 350 milljónir sem núverandi stofnfjárhöfum verður boðið fyrir áramót. Er með því verið að tryggja að núverandi stofnfjárhafar verði í áframhaldandi meirihluta stofnfjárhafa í sparisjóðnum?
Á fjölmennum fundi stofnfjáreigenda í Sparisjóðnum sem haldinn var 9. október sl. var tillaga um allt að 1.000 millj. kr. stofnfjáraukningu samþykkt með tilskyldum meirihluta atkvæða. Hún felur í sér að stofnfé verður aukið um 350 milljónir fyrir árslok 2007 og hafa núverandi stofnfjáreigendur forkaupsrétt og er það í samræmi við samþykktir Sparisjóðsins.
Er gert ráð fyrir því að fara í frekar stækkun á starfssemi sjóðsins eftir þessa aukningu stofnfjár og þá helst hverja?
Mikil aukning stofnfjár í Sparisjóðnum gefur tækifæri til að efla starfsemi sjóðsins, en stækkun á starfsvæðinu á undanförnum sjö árum kallar á aukningu á eiginfjár til þess að takast á við ný verkefni. Starfsstöðvar Sparisjóðs Vestmannaeyja ná frá Hveragerði í vestri til Breiðdalsvíkur í austri, með aðalstöðvar í Vestmannaeyjum. Ákvörðun um markaðssókn Sparisjóðsins var tekin að lokinni stefnumótun sjóðsins á árinu 1999. Fyrsta útibúið var opnað í júní 2000 á Selfossi og Sparisjóðurinn yfirtók rekstur Sparisjóðs Hornafjarðar og nágrennis á árinu 2006.
Var samþykkt sú tillaga stjórnar að hækka hámarks eignarhlutfall stofnfjárhafa úr 1.4% í 5%?
Tillaga stjórnar um að hámarkseignarhlutur hvers stofnfjáraðila í heildarstofnfé í Sparisjóðnum verði 5% var einnig samþykkt á fundinum og að hver króna verði minnsta eining og að tekin verði upp rafræn skráning á stofnfjárhlutum. Þetta þýðir að í framtíðinni geta hlutir stofnfjáreignenda orðið misjafnir, en í dag eru þeir 70 talsins og allir jafnir. Í lögum um sparisjóði eru ákvæði um að hámarkseignarhlutur hvers aðila á stofnfé geti verið allt að 10%, en hámarks atkvæðisréttur á hvern stofnfjáreigenda og aðila tengda honum er aftur á móti aldrei hærra en 5%.
Þegar 650 milljóna viðbótin verður boðin út geta allir boðið í þá hluti, fyrirtæki og einstaklingar?
Í tillögu stjórnar sem samþykkt var á fundinum er gert ráð fyrir að heimilt verði að auka stofnfé í Sparisjóðnum um allt að 650 milljónir til viðbótar þessum 350 milljónum sem búið er að samþykkja. Gildir þessi heimild til ársloka 2009 og hefur ekki verið tekin ákvörðun hvenær þessi heimild verði notuð, en það gerist að lokinni kynningu á fundi stofnfjáreigenda. Undanfarin ár hafa stofnfjáreigendur í Sparisjóðnum komið saman til fundar tvisvar á ári, á aðalfundi og fundi sem yfirleitt hefur tengst stækkun starfssvæðis og árshlutauppgjöri sjóðsins. Þeir sem verða stofnfjáreigendur þegar kemur til frekari aukningar stofnfjár eiga forkaupsrétt í samræmi við stofnfjáreign sína á þeim tíma.
Á fundi stofnfjárhafa í gær var hafnað þeirri tillögu að Vestmannaeyjabær tilnefni menn í stjórn Sparisjóðsins, hver eru rökin fyrir því að Vestmannaeyjabær hafi þessa aðkomu að sjóðnum?
Frá upphafi starfsemi Sparisjóðs Vestmannaeyja hefur sú skipan haldist að stofnfjáreigendur (áður ábyrgðarmenn) hafa kosið þrjá stjórnarmenn og þrjá til vara og bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur tilnefnt tvo aðalmenn og tvo til vara. Sparisjóðurinn er sjálfseignarstofnun og eigið fé skiptist í stofnfé frá stofnfjáreigendum og varasjóð. Stjórnarmenn eru allir úr hópi stofnfjáreigenda og hefur svo verið um áratugaskeið. Í Sparisjóðnum í Keflavík er sami háttur og í Eyjum en þar tilnefna sveitarfélögin á starfssvæði hans tvo stjórnarmenn af fimm. Tveir sparisjóðir eru nú að sameinast Sparisjóðnum í Keflavík, Sparisjóður Vestfirðinga og Húna- og Stranda, en áður hafði Ólafsvík sameinast Keflavík. Sveitafélagið Borgarbyggð er eini stofnfjáreigandi í Sparisjóð Mýrarsýslu og hefur hann stækkað sitt starfssvæði sem nær nú yfir sparisjóðina í Ólafsfirði, Siglufirði og í Skagafirði. Spron er orðið hlutafélaga sparisjóður og ráða þar hluthafarnir, en um leið myndast sjálfstæður sjálfseignarsjóður í hópi hluthafa sem hefur það verkefni að styðja menningarstarfsemi o.fl. Sparisjóðurinn á Dalvík hélt nýlega stofnfjáreigendafund og þar var samþykkt að auka stofnfé um 500 milljónir og stefna á að breyta sparisjóðnum í hlutafélag á næsta ári. Þá er sparisjóðurinn á Bolungavík að auka stofnfé um 500 milljónir til viðbótar 230 milljónum.
Það hefur aldrei komið upp ágreiningur í tæplega 65 ára sögu Sparisjóðs Vestmannaeyja milli fulltrúa sveitarfélagsins og annara stjórnarmana. Við verðum einnig að hafa í huga að hlutur stofnfjáreigenda er enn aðeins lítið brot af eiginfé sparisjóðsins. Langstærsti hlutinn er varasjóður sjálfseignastofnunarinnar sem ber að verja og hverjir eru betur til þess fallnir en fulltrúar sveitarfélagsins ásamt fulltrúum stofnfjáreigenda í stjórninni til þess að gæta í senn hagsmuna Sparisjóðsins í góðri sátt við stofnfjáreigendur, viðskiptamenn Sparisjóðsins og samfélagið í Eyjum.
Allt umhverfi fjármálafyrirtækja er á sífelldri hreyfingu og tíminn á eftir að leiða í ljós hvort rekstrarform sparisjóðanna breytist hratt á næstunni. Umfram allt ber okkur að varðveita, styrkja og efla starfsemi Sparisjóðs Vestmannaeyja til framtíðar og hann verði áfram hornsteinn í héraði.
www.eyjar.net þakkar formanni stjórnar Sparisjóðsins fyrir svörin.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst