Á svokallaðri Baldurshagalóð í miðbæ Vestmannaeyja rís nú glæsileg bygging sem mun innihalda fyrsta vísi að verslunarmiðstöð í Vestmannaeyjum. Einnig eru í húsinu 2ja, 3ja og 4ja herbergja íbúðir og hefur gengið vel að selja þær.
www.eyjar.net hafði samband við Helga Bragason hjá Fasteignasölu Vestmannaeyja til að fræðast um málið.
Samkvæmt upplýsingum frá Helga er gert ráð fyrir því að fyrstu íbúar hins nýja Baldurshaga flytji inn vorið 2008. Húsið er 4ra hæða fjölbýlishús með 14 íbúðum en upphaflega var gert ráð fyrir 16 íbúðum í húsinu. En vegna óska kaupenda hafa íbúðir verið stækkaðar og þeim fækkað og í dag eru þær 14 talsins.
Bílastæði íbúa Baldurshaga eru í kjallarahússins þannig að þessi fjölgun íbúa í miðbæ Vestmannaeyja ætti ekki að skapa nein bílastæðavandamál eins og eru víða í miðbæjum borga og bæja.
Helgi segir að vel gangi að selja þessari eignir, jafnt stærri sem minni íbúðir en fermetraverð er nálægt 200.000 kr per fermeter en sambærilegar eignir í miðbæ Reykjavíkur væru um helmingi dýrari eða um 400.000 per fermeter.
Á fyrstu hæð hússins er gert ráð fyrir verslunarrými og má segja að þarna sé kominn fyrsti vísirinn að verslunarmiðstöð í Vestmannaeyjum og segir Helgi að mikill áhugi sé að því verslunarplássi enda er ætlunin að þarna verði fyrsta flokks verslunarmiðstöð í hjarta bæjarins.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst